Nýr vefur – byggingarreglugerd.is

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) hefur opnað sérstakan vef tileinkaðan byggingarreglugerðinni sem finna má á slóðinni byggingarreglugerd.is. Þar er nú hægt að fletta upp á einfaldan hátt í þeim reglum sem gilda um framkvæmdir, leyfi, hönnunargögn og úttektir, svo fátt eitt sé nefnt. Áður var reglugerðina aðeins að finna samsetta í PDF skjali á vef HMS.

Ljósmynd: Hugi Ólafsson
  • Á byggingarreglugerd.is er hægt að fletta á einfaldan hátt upp í reglugerðinni sem áður var aðeins að finna samsetta á PDF formi á vef HMS
  • Leiðbeiningar með reglugerðinni eru einnig aðgengilegar á síðunni
  • Reglugerðin er afar umfangsmikil og nær yfir allt framkvæmdaferlið, allt frá ábyrgð hönnuða til framkvæmda lokaúttekta

Á vefnum er hægt að skoða allar breytingar sem gerðar hafa verið á byggingarreglugerðinni síðan hún tók fyrst gildi og fylgja leiðbeiningar með þar sem finna má nánari skýringar, túlkun eða tæknilegar útfærslur.  

Heimilt að byggja allt að 40 fm hús á lóð án byggingarleyfis

Byggingarreglugerðin inniheldur reglur sem viðkoma öllum sem koma að mannvirkjagerð eða fara með stjórnsýslu vegna mannvirkja, s.s. sveitarfélögum, en einnig eigendum, kaupendum, leigjendum, byggjendum o.s.frv. Undanfarið hefur verið mikið um að fólk vilji ráðast í breytingar og ýmsar framkvæmdir á fasteignum og er tilvalið fyrir einstaklinga í framkvæmdahug að glugga í byggingarreglugerð, t.d. til að fá á hreint í hvaða tilvikum þarf ekki að sækja um byggingarleyfi.

Sem dæmi má nefna að samkvæmt breytingu sem gerð var fyrir nokkrum árum þá þarf ekki lengur að sækja um byggingarleyfi til að byggja allt að 40 fm hús á lóð. Þetta getur t.d. verið nokkuð veglegt gestahús, bílskúr eða vinnustofa. Er slík framkvæmd aðeins tilkynningarskyld.

Slóð á vefinn: www.byggingarreglugerd.is

Samband íslenskra sveitarfélaga fagnar þessum áfanga og hvetur alla til að kynna sér byggingarreglugerd.is