Nýjar aðferðir við orkuöflun

Eftirspurn eftir raforku er nú þegar umfram framboð hér á landi, segir í nýrri skýrslu sem ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hefur látið gera um nýjar aðferðir við orkuöflun. Vindorka, lítil vatnsorkuver og varmaorka eru þeir orkukostir sem taldir eru líklegastir til að leysa úr stóraukinni orkuþörf á næstu áratugum. Sveitarfélög gegna lykilhlutverki fyrir orkubúskap þjóðarinnar.

Eftirspurn eftir raforku er nú þegar umfram framboð hér á landi, segir í nýrri skýrslu sem ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hefur látið gera um nýjar aðferðir við orkuöflun. Vindorka, lítil vatnsorkuver og varmaorka eru þeir orkukostir sem taldir eru líklegastir til að leysa úr stóraukinni orkuþörf á næstu áratugum. Sveitarfélög gegna lykilhlutverki fyrir orkubúskap þjóðarinnar.

Skýrslan var gerð að beiðni Alþingis og er liður í mótun langtímaorkustefnu fyrir Ísland. Einkum er fjallað um nýtingu vindorku, sjávarorku og varmaorku með varmadælum, auk þess sem litið er til annarra möguleika við orkuöflun. Líkleg framtíðarþróun er greind í hagnýtingu þessara orkugjafa og stiklað er á helstu tæknilegu og umhverfislegu úrlausnarefnum sem huga verður að. Má þar nefna sem dæmi náttúrufar, staðarval, rekstur og förgun. Þá er einnig fjallað um lög og lagalegt umhverfi leyfisveitinga.

Aukin eftirspurn eftir grænni raforku er aðallega rakin til fólksfjölgunar, tækniþróunar, nýrra umhverfisvænna atvinnuhátta og orkuskipta, en talið er að framtíðarorkuþörf landsmanna hafi verið vanmetin um allt að 3.800 GWst á ári. Samsvarar það rúmlega einni og hálfri Búrfellsstöð, en stöðin er 270 MW og telst, vel að merkja, til stórra orkuvera með allt að 2.300 GWst vinnslugetu á ári.

Meginniðurstaða skýrslunnar er sú, að þessari stórauknu þörf verði ekki mætt svo vel sé, nema með auknu grænu raforkuframboði. Fækki samfara því hefðbundnum kostum í jarðvarma og vatnsafli, verði að huga að nýjum endurnýjanlegum orkukostum. 

Miðað við tæknilegan áreiðanleika og upplýsingar um hagkvæmni eru einkum þrír orkukostir sem standa öðrum framar. Þeir eru orkuframleiðsla með vindorku, litlum vatnsorkuverum og varmadælum. Auk þess sem þessir kostir fari vel saman, megi nýta hvern þeirra einan og sér, allt eftir aðstæðum.

Þá er bent á að Ísland njóti sérstöðu í alþjóðlegum samanburði, en óvíða megi finna grænni orku- og varmaframleiðslu. Keppikefli flestra ríkja sé að auka sem mest hlutdeild endurnýjanlegrar orku, ekki hvað síst með það fyrir augum, að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka orkuöryggi með innlendri orkuframleiðslu. 

Helsti vöxtur í endurnýjanlegri raforkuframleiðslu er jafnframt sagður í vind- og sólarorku. Tækninni hafi fleygt fram og séu þessir kostir að verða afar hagstæðir í samanburði við hefðbundnari orkukosti af jarðefnalegum eða endurnýjanlegum toga.

Sveitarfélög eru hvött til að gefa vindorkunýtingu nánari gaum, ekki hvað síst í skipulagsmálum. Um smávirkjanir segir m.a. að stofnkostnaður á MW megi ekki vera hærri en 320 m.kr. kr. á verðlagi 2018, svo að arðsemi lítilla vatnsaflsvirkjana geti talist ásættanleg.  Enn fremur er bent á varðandi staðarval fyrir vindorkuver, að landsskipulagsstefna geti tekið til þess, að höfðu samráði við viðkomandi sveitarfélög. Tilgangurinn er þá sá, að samþætta áætlanir opinberra aðila, s.s. vegna náttúruverndar og orkunýtingar.

Skýrsla ráðherra er samin að beiðni Alþingis og er unnin í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu með aðkomu Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, Orkustofnunar, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Samorku og fyrirtækja innan vébanda þeirra.