Nýir styrkir til skólaþróunar – ertu með góða hugmynd?

Mennta- og barnamálaráðuneytið auglýsir eftir umsóknum um styrki til nýsköpunar- og skólaþróunarverkefna á vettvangi leik-, grunn- og framhaldsskóla og frístundastarfs. Um nýja styrki er að ræða til að efla skólaþróun um allt land í samræmi við aðgerð 2 í menntastefnu stjórnvalda til ársins 2030.

Markmið styrkja er að stuðla að öflugri skólaþróun með fjölbreyttum verkefnum sem kennarar, skólastjórnendur og annað fagfólk og nemendur hafa frumkvæði að og byggja á grunni áherslna menntastefnunnar. Horft er til heildarnálgunar á menntun og víðtækrar samvinnu innan skóla og milli skóla og annarra stofnana, auk samvinnu heimila og skóla.

Menntastefna stjórnvalda til ársins 2030.

Styrkjunum er ætlað að styðja við nýja nálgun og vera hreyfiafl framfara í skóla- og frístundastarfi til þess að koma áherslum menntastefnu til framkvæmdar, jafna tækifæri nemenda um land allt og hvetja skóla til nýsköpunar á sviði skólaþróunar.

Verkefni skal vera

 • í samræmi við áherslur menntastefnu til ársins 2030,
 • með skýra fjárhagsáætlun og traustan fjárhagsgrundvöll,
 • með vel skilgreinda verk- og tímaáætlun,
 • með skýra áætlun um að allar afurðir verkefnisins séu gerðar aðgengilegar á landsvísu og miðlað án endurgjalds.

Áherslur í úthlutuninni eru á

 • menntastefnu til 2030,
 • málefni barna og ungmenna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn,
 • samstarfsverkefni á milli skóla og/eða stofnana.

Æskilegt er að verkefnið

 • hafi vel skilgreint samstarf á milli skóla og skólastiga innan tiltekins landsvæðis og jafnvel landsvæða, en það er þó ekki skylda,
 • sé með yfirliti um áætlað mótframlag umsóknaraðila, hvort sem er í vinnu eða útgjöldum,
 • innihaldi einhvers konar þróun náms- og kennsluhátta.

Um styrki geta sótt leikskólastjórar, skólastjórar og skólameistarar fyrir hönd skóla, kennarahópa eða einstaka kennara sem og forsvarsfólk frístundaheimila- og félagsmiðstöðva fyrir hönd síns starfsfólks og stofnana. Aðrir aðilar geta einnig sótt um en þurfa þá að skila inn staðfestingu um þátttöku skóla með umsókn.

Umsóknir eru metnar út frá því að

 • verkefnið falli að áherslum auglýsingar og menntastefnu 2030,
 • verkefni feli í sér áhugavert þróunarstarf með notagildi fyrir aðra skóla,
 • ávinningi verði deilt á landsvísu án endurgjalds,
 • líkur séu á að umsækjanda takist að ná þeim markmiðum sem verkefnið miðar að innan tímaramma,
 • fjárhagsáætlun sé góð og gagnsæ.

Umsóknarfrestur er til og með 24. nóvember 2023. Úthlutað verður fyrir árslok 2023.

 • Sækja um styrk (undir Eyðublöð - Mennta- og barnamálaráðuneytið)