Nýir samstarfssamningar Heimilis og skóla – landssamtaka foreldra og SAFT

Heimili og skóli – landssamtök foreldra og SAFT hafa undanfarið undirritað samstarfssamninga við sveitarfélög sem ætlað er að formfesta samstarf um markvissa fræðslu og ráðgjöf frá sérfræðingum Heimilis og skóla.

Markmiðið með samningnum er að ýta undir og efla enn frekar öflugt foreldra-, forvarna- og fræðslustarf sveitarfélaga. 

Merki Heimilis og skóla

Útfærsla á samstarfi er skipulög eftir þörfum hvers sveitarfélags fyrir sig en í því getur falist s.s. árlega SAFT fræðsla um jákvæða og örugga netnotkun barna og unglinga, foreldra og starfsfólk skóla og frístundastarfs, ásamt fræðslu og stuðning við bekkjarfulltrúa og foreldrafélög í leik- og grunnskólum sveitarfélagsins auk starfsfólks.  Samstarfinu fylgir einnig greiður aðgangur að sérfræðing frá Heimili og skóla til að fylgja samstarfinu markvisst eftir auk þess að veita annan þann mikilvæga stuðning sem Heimili og skóli innir af hendi.  Samstarfsaðilar fá auk þess aðgang að öllu fræðsluefni sem Heimili og skóli og SAFT gefur út. 

Ávinningur sveitarfélaga með samning við Heimili og skóla er veruleg hagræðing fyrir alla aðila, allir fá ákveðna grunnfræðslu í sveitafélaginu, sem tryggir jöfnuð fyrir nemendur og foreldra.  Með samning eru einnig gefin skýr skilaboð um mikilvægi þessa forvarnastarfs í þágu farsældar barna, foreldrasamstarfs og netöryggis.  

Heimili og skóli og SAFT hafa gert nokkra samninga við sveitarfélög sem hafa reynst vel.  Undirtektir hjá forsvarsmönnum fræðslumála í sveitarfélögum hafa verið góðar og eru samtökin með í undirbúningi fleiri samninga við sveitarfélög um að feta þessa sömu leið sem er ávinningur og hagræðing fyrir alla aðila.