Ný markmið Íslands í loftslagsmálum á 5 ára afmæli Parísarsáttmálans

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra mun kynna ný markmið Íslands í loftslagsmálum á leiðtogafundi laugardaginn 12. desember. Fundurinn er haldinn á fimm ára afmæli Parísarsáttmálans á vegum Sameinuðu þjóðanna.

Á fundinum taka þátt leiðtogar þeirra ríkja sem eru reiðubúin að kynna ný og metnaðarfull markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda, kolefnishlutleysi og framlög til loftslagsmála í þróunarlöndunum og þar mun Ísland kynna þrjú ný markmið:

  • Aukinn samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda, úr núverandi markmiði um 40% samdrátt í 55% eða meira til ársins 2030.
  • Efldar aðgerðir til að ná markmiði Íslands um um kolefnishlutleysi árið 2040
  • Aukin áhersla á loftslagstengd þróunarsamvinnuverkefni

Tilkynning Íslands um efldan metnað varðandi samdrátt í losun tekur mið af samfloti Evrópusambandsins, Íslands og Noregs innan vébanda Parísarsamningsins. Þar ætla ríkin sameiginlega að ná 40% samdrætti í losun til 2030. Ísland og Noregur gerðu samkomulag við ESB árið 2019 um hlut ríkjanna í því sameiginlega markmiði, með hliðsjón af þátttöku ríkjanna tveggja í viðskiptakerfi um losunarheimildir.

En hvaða áhrif hefur aukinn samdráttur í losun Íslands á sveitarfélög?

Það er ljóst að hér mun koma til kasta sveitarfélaga og markmið Íslands um 55% samdrátt í losun mun ekki nást án stórefldra aðgerða sem falla undir verksvið sveitarfélaga. Þar má t.d. nefna frekari eflingu virkra ferðamáta, orkuskipti í samgöngum og skipum og bætt meðhöndlun úrgangs.