Þann 11. júní sl. samþykkti Alþingi fjögur frumvörp félags- og barnamálaráðherra sem tengjast málefnum barna.
Um er að ræða nýja löggjöf um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, lög um Barna- og fjölskyldustofu, lög um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála og breytingar á lögum um Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins. Þá var einnig samþykkt þingsályktun um Barnvænt Ísland.
Samþætting þjónustu í þágu farsældar barna
Meginmarkmið laganna er að búa til umgjörð sem stuðlar að því að börn og foreldrar sem á þurfa að halda hafi aðgang að samþættri þjónustu við hæfi án hindrana. Þannig miða ákvæði laganna að því að formfesta samstarf um veitingu þjónustu í þágu farsældar barna og skapa skilyrði til að unnt sé að bregðast fyrr við tilteknum aðstæðum eða erfiðleikum í lífi barns með viðeigandi stuðningi þegar þörf þykir. Lögin öðlast gildi 1. janúar 2022.
Svæðisbundin farsældarráð á vegum sveitarfélaga
Gert er ráð fyrir að samstarfsvettvangur þvert á ráðuneyti, og í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, undirbúi stefnu og framkvæmdaáætlun um farsæld barna sem lögð verði fram sem þingsályktun innan árs frá alþingiskosningum. Þá skal ráðherra boða til farsældarþings sem er umræðuvettvangur fagfólks, notenda og stjórnvalda þar sem unnið er að samþættingu, nýsköpun og úrbótum í málum er varða farsæld barna. Jafnframt er gert ráð fyrir að sveitarfélög skipi svæðisbundin farsældarráð sem í eigi sæti fulltrúar svæðisbundinna þjónustuveitanda á vegum ríkis og sveitarfélaga. Svæðisbundna farsældarráðið skal vinna áætlun um svæðisbundna forgangsröðun aðgerða til fjögurra ára sem tekur mið af fyrrgreindri þingsályktun um barnvænt samfélag. Þá skulu sveitarfélög vinna skýrslur um framvindu áætlana og skila þeim til Gæða- og eftirlitsstofnunar.
Stigskipting þjónustu
Með lögunum er kveðið á um stigskiptingu þjónustu. Þannig er gert ráð fyrir að öll þjónusta í þágu farsældar barna sé veitt á þremur þjónustustigum og gert ráð fyrir að öll þjónusta sé flokkuð á viðkomandi stig með setningu reglugerða. Á fyrsta stigi er grunnþjónusta sem er aðgengileg öllum börnum og foreldrum og einstaklingsbundinn snemmtækur stuðningur. Þjónusta á fyrsta stigi s.s. þjónusta leik- og grunnskóla er því almennt á ábyrgð sveitarfélaga. Á öðru stigi er um markvissari einstaklingsþjónustu að ræða en á þriðja stigi er þjónustan orðin sérhæfðari. Þjónusta á öðru stigi getur verið bæði á ábyrgð sveitarfélaga og ríkisins en almennt er þjónusta á þriðja stigi á ábyrgð ríkisins. Sambandið hefur lagt mikla áherslu á að vinna við að flokka þjónustu á stig hefist sem fyrst enda standa vonir til þess að með markvissri og samhæfðri flokkun sé hægt að fækka gráum svæðum milli ríkis og sveitarfélaga.
Tengiliðir, málstjórar og stuðningsteymi
Lögin kveða á um að öll börn og foreldrar skuli hafa aðgang að tengilið þjónustu í þágu farsældar barns eftir því sem þörf krefur. Hér er um nýtt hlutverk að ræða sem skiptist að mestu á milli heilsugæslu, skólakerfisins og að hluta til félagsþjónustunnar. Þegar barn er við nám í leik-, grunn- og framhaldsskóla er gert ráð fyrir að tengiliður sé starfsmaður skólans. Hlutverk tengiliðar er að veita upplýsingar og aðstoða við samþættingu eins og nánar er útfært í lögunum en einnig er gert ráð fyrir að ráðherra setji reglugerð um tengiliði.
Þá er kveðið á um málstjóra sem skipaður er ef barn hefur þörf fyrir frekari þjónustu en veitt er á fyrsta stigi. Sveitarfélag skal velja málstjóra sem starfar við félagsþjónustu sveitarfélagsins eða á þeim sviðum sem þarfir barnsins liggja. Hlutverk málstjóra er að veita ráðgjöf og upplýsingar og fylgja eftir að þjónusta sé veitt eins og nánar er lýst í lögunum en einnig er gert ráð fyrir að ráðherra setji reglugerð um málstjóra. Þá skal málstjóri stofna stuðningsteymi þar sem sitja fulltrúar þjónustuveitanda sem veita barni þjónustu en stuðningsteymið skal gera stuðningsáætlun fyrir barnið þar sem þjónusta í þágu farsældar barnsins er samþætt.
Fjármögnun og innleiðing breytinga
Gert er ráð fyrir að það fjármagn sem Alþingi hefur samþykkt að veita til verkefnisins fari í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga en unnið er að útfærslu á skiptingu fjármagnsins. Þá er félagsmálaráðuneytið að stilla upp áætlun um innleiðingu svo hægt verði að ganga hratt til verks að loknum sumarleyfum.
Breytingar á skipulagi stofnana
Eins og áður segir taka lögin um samþættingu þjónustu gildi þann 1. janúar 2022. Samhliða verða töluverðar breytingar á skipulagi stofnana sem koma að málefnum barna. Frá og með næstu áramótum mun þannig ný ríkisstofnun - Barna- og fjölskyldustofa - taka til starfa og hafa með höndum að veita og styðja við þjónustu í þágu barna. Samhliða verður Barnaverndarstofa lögð niður. Stofnunin mun einnig stuðla að gæðaþróun í samræmi við bestu þekkingu og reynslu á hverjum tíma.
Þessi nýja stofnun mun annast uppbyggingu og yfirstjórn heimila, stofnana og sérhæfðra úrræða fyrir börn. Barna- og fjölskyldustofa mun þjóna landinu öllu.
Ráðgjafar- og greiningarþjónusta við börn og ungmenni tekur einnig breytingum sem ætlað er að efla samstarf og samþættingu þjónustu í þágu barna. Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins (GRR) fær heitið Ráðgjafar- og greiningarstöð og fyrirkomulagi frumgreininga er breytt þannig að stofnunin fær heimildir til að setja reglur um fyrirkomulag frumgreininga sem þjónustuveitendum ber að fylgja. Þeir hópar sem njóta þjónustu stofnunarinnar eru skilgreindir betur og skyldur stofnunarinnar gagnvart þeim skýrðar sem og skyldur hennar gagnvart þjónustuveitendum.
Þá er skilgreiningum í lögum um ráðgjafar- og greiningarstöð breytt til þess að styðja við innleiðingu á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og skerpt á því meginhlutverki stofnunarinnar að stuðla að sjálfsbjörg barna og ungmenna og virkri þátttöku þeirra í samfélaginu.
Síðast en ekki síst er settur fastur lagarammi um verkefni þeirrar gæða- og eftirlitsstofnunar sem starfað hefur undanfarin ár á vettvangi félagsmálaráðuneytisins. Nýsamþykkt lög mæla ítarlega fyrir um hlutverk Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála við að framfylgja eftirliti með gæðum þeirrar þjónustu sem veitt er á grundvelli barnaverndarlaga, laga um Barna- og fjölskyldustofu, laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, laga um málefni aldraðra, laga um Ráðgjafar- og greiningarstöð, laga um þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu og laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.
Þingsályktun um Barnvænt Ísland
Með þingsályktunartillögunni eru sett fram markmið og aðgerðaætlun sem ætlað er að stuðla að markvissri innleiðingu á öllum þáttum barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna með hliðsjón af almennum athugasemdum barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna. Þónokkrar aðgerðir snerta sveitarfélögin með einum eða öðrum hætti. Þannig er t.d. gert ráð fyrir að öll sveitarfélög verði „Barnvæn sveitarfélög“ og fái í því skyni markvissa fræðslu og ráðgjöf. Þá er gert ráð fyrir að útbúið verði svokallað „farsældarborð“ þar sem finna má tölfræðilegt yfirlit yfir velferð, líðan og réttindi barna en sambandið bindur miklar vonir við að það geti stutt sveitarfélög við að auka farsæld barna á þeirra svæði.
Að lokum
Heilt yfir hefur sambandið átt í góðu samstarfi við félagsmálaráðuneytið um framangreint og fyrir það ber að þakka. Þá bindur sambandið miklar vonir við að innleiðing verði markviss og að sveitarfélögin njóti nauðsynlegs stuðnings og fjármagns svo að markmið breytinganna nái fram að ganga.
Sambandið hvetur sveitarfélög til að kynna sér vel efni framangreindra laga og hefja sem fyrst undirbúning að innleiðingu.