Ný byggðarmerki Skagabyggðar og Húnabyggðar

Sveitarfélögin Skagabyggð og Húnabyggð hafa tekið í notkun ný byggðarmerki sveitarfélaganna.

Um áramót opnaði Skagabyggð nýja vefsíðu fyrir sveitarfélagið og kynnti um leið hið nýja byggðarmerki. Birgir Breiðfjörð hannaði byggðarmerkið fyrir Skagabyggð. Sveitarstjórn samþykkti tillögu Birgis á fundi sínum 29. desember 2022.

www.skagabyggd.is

Nýtt merki í Húnabyggð

Í desember 2022 völdu íbúar Húnabyggðar nýtt byggðarmerki fyrir sveitarfélagið í almennri kosningu þar sem kosið var á milli fjögurra merkja. Merki sem Ólína Sif Einarsdóttir hannaði stóð uppi sem sigurvegari í kosningunni. Í frétt á vef húnabyggðar segir um valið á byggðarmerkinu:

Í rökstuðningi fyrir nafni nýja sveitafélagsins Húnabyggðar var vísað til þess að í Vatnsdælasögu segi frá því að landnámsmaðurinn Ingimundur hefði fundið hvítabjörn og tvo húna á Húnavatni og nefnt vatnið eftir því. Hönnuður telur því við hæfi að húnarnir tveir prýði skjaldamerkið en þeir tákna hér einnig sameiningu sveitafélaganna tveggja sem mætast í famlagi. En bjarnafaðmurinn táknar hér hlýju, öryggi og samstöðu samfélagsins. Í sama rökstuðningi var einnig bent á að forskeytið Húna- sé vel þekkt í örnefnum á svæðinu og því samofið sögu svæðisins. Það gefi því sterka vísbendingu um staðsetningu sveitafélagsins – sem er einmitt markmiðið að skjöldurinn geri, standi hann einn án nafns sveitafélagsins. Grunnflötur skjaldarins er blár – litur himins og hafs.

www.hunabyggd.is