14. des. 2010

Annar fundur Sveitarstjórnarvettvangs EFTA haldinn í Brussel

  • 2010-11-26-forum-group-256px

Við gerð EES-samningsins var ekki ljóst hversu mikil áhrif hann myndi hafa á sveitarfélög í EES-EFTA löndunum. Sveitarstjórnarstiginu var því ekki tryggð nein aðkoma að EES-samstarfinu. Síðar kom í ljós að stór hluti af evrópskri löggjöf sem innleidd er í gegnum EES-samninginn hefur áhrif  á sveitarfélög, allt að 70% að því er talið er, auk þess sem samningurinn tryggir sveitarfélögum aðgang að fjölmörgum evrópskum samstarfsáætlunum. Sveitarstjórnarstigið hefur því mikilla hagsmuna að gæta í EES-samstarfinu og í nokkur ár hafa íslenska og norska sveitarfélagasambandið beitt sér fyrir því að geta tengst því.

Til að koma á samráði við sveitarfélög var Sveitarstjórnarvettvangi EFTA settur á fót í júní sl. Meginmarkmiðið er að tryggja þátttöku sveitarstjórnarmanna í EES-samstarfinu og koma á tengslum við Héraðanefnd ESB enn í henni sitja kjörnir fulltrúar frá ESB ríkjunum og fjalla um tillögur að evrópskri löggjöf sem varða sveitarstjórnarstigið. 

Fyrsti fundur vettvangsins fór fram í Reykjavík 22.-23. júní 2010 en þar voru fyrsti formaður hans og varaformaður kjörnir. Formenn landshlutasamtaka sveitarfélaga, borgarstjóri og formaður Sambands íslenska sveitarfélaga eiga sæti í vettvanginum en íslenskir fulltrúar sem sátu fundinn nú eru Albertína Elíasdóttir, FV, Bjarni Jónsson, SSNV, Halldór Halldórsson, og Guðríður Arnardóttir, Samband íslenskra sveitarfélaga, Sveinn Kristinsson og Hrefna B. Jónsdóttir, SSV. 

Á döfinni í EFTA ríkjum

Á fundinum sögðu fulltrúar frá helstu sveitarstjórnarmálum á döfinni í Noregi og á Íslandi. Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, sagði frá flutningi málefna fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga og yfirstandandi endur-skoðun sveitarstjórnarlaga. Norskir fulltrúar sögðu endurbótum á heilbrigðiskerfinu og frá rannsókn sem verið er að gera á áhrifum EES-samningsins almennt í Noregi sem sýnir að um 70%  ákvarðana í norskum sveitarfélögum eru teknar undir áhrifum frá Evrópulöggjöf. Einnig var fjallað um mögulega þátttöku íslenskra og norskra sveitarfélaga í verkefnum sem styrkt eru af Þróunarsjóði EFTA og rætt um nauðsyn þess að tryggja þátttöku sveitarstjórnarstigsins í verkefnum sem styrkt eru af sjóðnum.

Úrgangsmál á dagskrá vettvangsins

ruslHelsta viðfangsefni Sveitarstjórnarvettvangsins að þessu sinni var úrgangsmál. Angelika Poth-Mögele frá Evrópu-samtökum sveitarfélaga og Gunnel Klingberg frá Municipal Waste Europe sögðu frá umræðu á vettvangi ESB um raf- og rafeindatækjaúrgang og lífrænan úrgang (e. biowaste).

Aðeins um þriðjungur af raftækjaúrgangi (33%) er meðhöndlaður í Evrópu og tilkynntur í samræmi við lög. Meira en helmingur (54%) er meðhöndlaður á annan máta – innan eða utan ESB – sem samræmist ekki reglum Evrópu-sambandsins. Það sem eftir stendur (13%) er urðað. Ólögleg viðskipti með raftækjaúrgang til landa utan ESB eru enn mikil. Því er ljóst að sé miðað við núverandi söfnunar- og endurvinnsluhlutfall þá verður markmiðum núgildandi tilskipunarinnar á sviði lýðheilsu og umhverfisverndar ekki náð á næstunni. Auk þess hefur ólík útfærsla á ákvæðum um framleiðendaábyrgð leitt til mjög mismunandi kerfa á söfnun og endurnýtingu á þessum úrgangi í löndum ESB. Til að bregðast við þessum vanda er tilskipun um raftækjaúrgang nú til endurskoðunar hjá ESB. Samtök evrópskra sveitarfélaga CEMR sendu í apríl 2010 tillögur um breytingar til Evrópuþingsins þar sem endurgerð tilskipunarinnar er nú til meðferðar. Evrópuþingið stefndi að því að komast að niðurstöðu síðastliðið sumar en verið er að ræða við ráðherraráð ESB um endanlega útgáfu og því er ekki reiknað með að þingið taki ákvörðun um nýja tilskipun fyrr en í febrúar 2011. Ýmis álitamál eru til skoðunar t.d. tillögur um frekari afmörkun þess hvaða vörur falla undir tilskipunina, samræmda skráningu, markmið um að auka sérsöfnun á raf- og rafeindatækjaúrgangi úr 45% í 65% árið 2016, o.fl. Mörg þessara atriða er umdeild hjá aðildarríkjunum, t.d. er aukið söfnunarmarkmið talið vera óraunhæft fyrir nýjustu aðildarríki ESB, sem hafa þess vegna lýst andstöðu sinni við þessa aukningu. Sveitarstjórnarmenn á Íslandi og í Noregi, sem og CEMR og MWE, leggja mikla áherslu á fulla framleiðendaábyrgð, þ.e. að framleiðendur/innflytjendur beri fjárhags- og framkvæmdalega ábyrgð á allri meðhöndlun raftækjaúrgangs sem skila má án endurgjalds á söfnunarstöðvar sveitarfélaga, frá söfnun til endurnýtingar og svo til förgunar. Lesa má frekar um þetta mál hér.

Undanfarið hefur endurvinnsla lífræns úrgangs einnig verið mikið til umræðu á vettvangi ESB en hér er átt við lífrænan úrgang frá heimilum og sambærilegan úrgang úr rekstri, svo sem matarleifar og garðaúrgang. Pappír, timbur og álíka telst þó ekki til lífræns úrgangs í þessum skilningi  heldur teljast til lífræns niðurbrjótanlegs úrgangs. Munurinn á þessu tvennu er að verða mikilvægur vegna þeirrar umræðu um sérstaka meðhöndlun lífræns úrgangs sem nú fer fram á vettvangi ESB. Framkvæmdastjórnin gaf út grænbók um lífrænan úrgang í desember 2008 til að örva umræðu og ákvarðanatöku um hvort sértækt regluverk um þennan úrgang sé æskilegt. Framkvæmdastjórnin og Evrópuþingið deila um það hvort þörf sé á nýrri löggjöf til að tryggja viðunandi vinnslu lífræns úrgangs. Framkvæmdastjórnin telur ekki að þörf sé á frekari löggjöf á meðan Evrópuþingið er á annarri skoðun og telur nauðsynlegt að setja sérstaka tilskipun til að auka endurvinnslu lífræns úrgangs. Sveitarstjórnarvettvangur EFTA ályktaði um málið. Sjónarmið framkvæmdastjórnar ESB eru áréttuð þ.e. að núgildandi löggjöf sé fullnægjandi; aðeins þurfi að tryggja bætta framfylgd hennar. Á Íslandi mun meðhöndlun lífrænt niðurbrjótanlegs úrgangs vera þungamiðja nýframkvæmda enda munu brátt gerðar auknar kröfur um endurnýtingu þessa úrgangs. Verið er að ræða stjórnsýslu endurnýtingu lífræns úrgangs þar sem málið heyrir bæði undir umhverfisráðuneytið og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið. Verkaskipting milli þeirra er óljós og hafa sveitarfélög farið fram á skýrar og sameiginlegar reglur sem gilda um meðhöndlun lífræns úrgangs. Lesa má nánar um þetta mál hér.

Tilgangur ályktana vettvangsins er að koma sjónarmiðum sveitarstjórnarstigsins á framfæri hvað varðar afmörkuð mál og vera Fastanefndinni til leiðsagnar í samskiptum við ESB þegar kemur að sveitarstjórnarmálum. Þá er einnig ætlunin að ályktanir Sveitarstjórnarvettvangsins verði Héraðanefndinni til upplýsinga um hvernig tiltekin mál snúa að EFTA-ríkjunum. Lesa má frekar um hlutverk vettvangsins hér.

Samstarf við Héraðanefnd Evrópusambandsins

2010-11-25-forum-and-com-regions-chairs-256px.ashxSveitarstjórnarvettvangur EFTA fundaði með Gerhard Stahl, aðstoðarframkvæmdastjóra nefndarinnar, til þess að ræða formlegt samstarf. Héraðanefndin er pólitísk samkoma sem ljær svæðisbundum yfirvöldum og sveitarfélögum rödd í stefnumótun ESB og lagasetningu. Nefndin er skipuð fulltrúum bæjar- og héraðsstjórna. Hún veitir m.a. umsagnir um lagafrumvörp sem snerta sveitarstjórnarstigið, t.d. tillögur á sviði umhverfismála, menntamála, byggðamála og samgöngumála. Héraðanefndin er skipuð 344 fulltrúum frá 27 ríkjum ESB. Á fundinum lagði Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga til að samstarf við Héraðanefndina gæti verið í gegnum efnahags- og félagsmálanefnd stofnunarinnar eða mögulega nefnd um ríkisborgararétt, stjórnskipulag, stofnana- og utanríkismál (CIVEX). Þess ber að geta CIVEX-nefndin hefur komið á fót samstarfsnefndum fyrir Króatíu, Tyrkland, Makedóníu og Vestur-Balkanskaga en með aðildarumsókninni stendur fyrir dyrum að slík samráðsnefnd verði einnig sett á fót fyrir Ísland. CIVEX starfar á sviði frelsis, öryggis og réttlætis, innflytjendamála, hælismála, mannréttinda, utanríkismála o.fl. Gerhard Stahl, tók erindinu vel og bauð Sveitarstjórnarvettvanginum að auki að sækja ráðstefnur Héraðanefndarinnar. Hugmyndir um samstarf verða útfærðar nánar á næstunni af Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Héraðanefndinni. 

Með samstarfi við Héraðanefndina gefst kostur á að fylgjast náið með þeim málum sem eru í burðarliðnum hjá ESB og koma sjónarmiðum EES-landa á framfæri á fyrstu stigum. Þá fæst aðgangur að sérþekkingu nefnda stofnunarinnar og tækifæri til samstarfs við pólitíska fulltrúa frá ESB-löndum.

Eftirlitsstofnun og EFTA dómstóllinn fjalla málefni sem snerta sveitarstjórnarstigið

Fulltrúar Eftirlitsstofnunar og dómstóls EFTA sögðu frá starfsemi stofnananna en ljóst er að sveitarstjórnarmál koma til kasta þessara stofnana, einkum eftirlitsstofnunarinnar. Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur eftirlit með framkvæmd reglna Evrópska efnahagssvæðisins á Íslandi, í Liechtenstein og Noregi, og gerir ríkjunum þannig kleift að taka þátt á innri markaði Evrópu. Per Sanderud, forseti stofnunarinnar kynnti starfsemina og sagði frá nokkrum málum er snerta sveitar-stjórnarstigið. Sem dæmi má nefna athugun ESA á því hvort kaup Reykjavíkurhafnar á hlutum í Dráttarbrautum Reykjavíkur og Stálsmiðjunni-Slippstöðinni hafi talist til ríkisaðstoðar (niðurstaðan var að svo var ekki), nýhafna rannsókn ESA á stuðningi íslenska ríkisins og Reykjanesbæjar við fyrirtækið Verne Holdings ehf. í tengslum við byggingu gagnavers á Reykjanesi og rannsókn á sölu norska sveitarfélagsins Oppdal á landssvæði mögulega undir markaðsverði. Þá sagði Per frá málum þar sem Norgur taldist hafa brotið gegn EES-samningnum með orkuskattaívilnunum sem veittar voru sveitarfélögum til þess að hvetja til umhverfisvæns iðnaðar og aðgerðum ESA vegna innleiðingar vatnatilskipunar ESB og tilskipana á sviði úrgangsmála. Skúli Magnússon, skrifstofustjóri við EFTA dómstólinn sagði frá starfi stofnunarinnar og bauð fulltrúum að heimsækja dómstóllinn til þess að ræða sveitarstjórnarmál sem falla undir lögsögu hans. Jafnframt lýsti hann áhuga sínum á því að fræðast nánar um stöðu mála í EFTA-ríkjunum.

Viðfangsefni 2011

Fulltrúar ræddu helstu mál á dagsskrá ESB 2011 sem snerta sveitarstjórnarstigið en ákveðið var að sveitarstjórnar-vettvangurinn muni á næsta starfsári beina sjónum sérstaklega að málum sem snerta opinber innkaup og almanna-þjónustu. Skipaðir voru tveir skýrslugjafar (f. rapporteurs) til að vinna greinargerð um stöðu mála í Noregi og á Íslandi að því er varðar innkaupareglur og framfylgd þeirra.  

Næsti fundur mun líkast til haldinn sumarið 2011.