10. des. 2010

Nýr forseti Evrópusamtaka sveitarfélaga kjörinn í Lúxemborg

  • CEMR-policy-committee
Stefnumótunarnefnd (Policy Committee) Evrópusamtaka sveitarfélaga (Council of European Municipalities and Regions) (CEMR) fundaði í Mondorf-les-bains í Lúxemborg dagana 6.-7. desember. Samband íslenskra sveitarfélaga tekur þátt í starfi CEMR sem eru stærstu samtök sveitarstjórnarstigsins í Evrópu. Aðild eiga landssambönd bæja, sveitarfélaga og héraða frá yfir 35 löndum Evrópu. Samtökin eru í fyrirsvari fyrir um 100.000 sveitarfélög og héruð í Evrópu.

Stefnumótunarnefndin fundar venjulega tvisvar á ári en að þessu sinni sátu fundinn fyrir Íslands hönd Aldís bæjarstjóri Hveragerðis og Óttarr Proppé borgarafulltrúi ásamt Önnu Guðrúnu Björnsdóttur sviðsstjóra alþjóðasviðs Sambands
íslenskra sveitarfélaga og Guðrúnu D. Guðmundsdóttur forstöðumanni Brussel-skrifstofu sambandsins.

CEMR-SChuster

Nýr forseti samtakanna kjörinn

Á fundinum var Wolfgang Schuster, borgarstjóri Stuttgartborgar kjörinn nýr forseti samtakanna kjörinn, en varaforsetar eru Aina Calvo Sastre, borgarstjóri Palma á Mallorka og Annemarie Jorritsma, borgarstjóri í Almere, Hollandi. Þá var einnig kjörin ný stjórn samtakanna. Nánari upplýsingar um stjórnskipulag samtakanna.

Starfið á árinu

Á fundinum var farið yfir vinnuáætlun samtakanna fyrir árið 2010. Framkvæmdastjóri sagði frá umfangsmiklu starfi á árinu en samtökin vinna að framgangi hugsjóna um sameinaða Evrópu sem grundvallist á lýðræðislegum gildum og sjálfsstjórnarrétti sveitarfélaga og héraða. Til þess að ná þessu markmiði leitast samtökin við að hafa áhrif á framtíð Evrópu með því að koma framlagi sveitarfélaga og héraða á framfæri, með því að hafa áhrif á evrópska löggjöf og stefnumótun, og með því að láta sveitarfélög og héruð skiptast á reynslu og stofna til samstarfs milli þeirra og aðila frá öðrum heimshlutum.

Umsögn CEMR um endurskoðun fjárlaga ESB

CEMR vinnur á mörgum sviðum, svo sem að byggða- og atvinnuþróunarmálum, samgöngumálum, umhverfismálum, jafnréttismálum og stjórnunarmálum. Nefndir og vinnuhópar samtakanna leitast við að hafa áhrif á evrópska löggjöf, sem verið er að vinna að, til að tryggja að það sé tekið tillit til hagsmuna sveitarstjórnarstigsins frá undirbúningi löggjafar ESB á frumstigi. Á fundinum var meðal annars kynnt umsögn CEMR um endurskoðun fjárlaga ESB þar sem lögð er áhersla á að meginreglan um samstarf verði lögfest (e. partnership principle) og eigi þá einnig við um sveitarstjórnarstigið. CEMR vonast til þess að framþróun komi í stað vaxtar og að gæði frekar en umfang verði haft að leiðarljósi í verkefnum í framtíðinni. Þá árétta samtökin að samheldnistefnan (e. cohesion policy) og stoðkerfissjóðirnir (e. structural funds) eigi ekki aðeins að vinna að framgangi Evrópu 2020 áætlunarinnar heldur byggja einnig á markmiðum ESB um efnahagslega,  félagslega og svæðisbundna samheldni sem kveðið er á um í Lissabon-sáttmálanum.

Evrópski fjárfestingabankinn

Fulltrúi frá Evrópska fjárfestingabankanum kynnti stofnunina og sagði frá sívaxandi samvinnu bankans við svæðisbundin stjórnvöld. Lýst var áhuga á samstarfi við CEMR til þess að kynna möguleika sveitarfélaga til þátttöku í verkefnum sem styrkt eru af bankanum. Til fróðleiks má geta þess að bankinn hefur lánað til íslenskra framkvæmda á sviði jarðvarma.

Jafnrétti kynjanna í starfi CEMR

Stefnumótunarnefndin samþykkti í fyrsta sinn að setja kvóta fyrir lágmarksfjölda fulltrúa af hvoru kyni í sendinefndum sem þátt taka í vinnu stefnumótunarnefndarinnar. Kosning tveggja kvenna til embætta varaforseta markar einnig þáttaskil í sögu samtakanna því konur hafa ekki áður gengt álíka virðingarstöðum innan samtakanna.