02. des. 2010

Breytingar á skattalögum vegna málefna fatlaðra

  • SIS_Fjarmal_sveitarfel_760x640

Athygli sveitarstjórna er vakin á því að fjármálaráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp um breytingar á ýmsum lagaákvæðum um skatta og gjöld. Í 26. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um að bæði hámarks- og lágmarksútsvar skv. lögum um tekjustofna sveitarfélaga hækki  um 1,20 hundraðshluta. Hámarksútsvar verður því 14,48% og lágmarksútsvar 12,44%. Í 7. og 14. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um að álagningarhlutfall tekjuskatts og staðgreiðsluhlutfall lækki um samsvarandi hlutfall. (sjá: http://www.althingi.is/altext/139/s/0380.html)

Í 21. til 25. gr. frumvarpsins er nánari útfærsla á áhrifum breytinganna á Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, en skv. 25. gr. verður stofnuð sérstök deild innan jöfnunarsjóðs vegna málefna fatlaðra. Jafnframt skal stofnaður sérstakur fasteignasjóður innan jöfnunarsjóðs sem fer með réttindi og skyldur vegna fasteigna sem nýttar eru í þjónustu við fatlaða og eru nú í eigu ríkisins. Þá er í 27. gr. lagt til að við tekjustofnalögin bætist þrjú ákvæði til bráðabirgða sem byggjast á samkomulagi ríkis og sveitarfélaga um tilfærslu málefna fatlaðra. Sérstök athygli sveitarfélaga er vakin á c-lið 27. gr. þar sem fram kemur hvernig framlögum úr jöfnunarsjóði til sveitarfélaga vegna þjónustu við fatlaða verði háttað á árinu 2011.

Til nánari skýringa skal tekið fram að fjárstreymismódelið er þannig samkvæmt frumvarpinu og heildarsamkomulaginu, að af þeim 1,2 prósentustigum sem hlutdeild sveitarfélaganna eykst um í álagningarstofni útsvars renna 0,95 prósentustig til sérdeildar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, en 0,25 prósentustig beint til sveitarfélaganna. Um þetta er einkum fjallað í 25. gr. og b- og c-lið 27. gr. (brbákv. XIII).

Í b-lið 27. gr. frv. er lagt til að lögfest verið að sveitarfélögin nýti þá fjármuni sem af þessari hækkun hlýst til þjónustu við fatlaða innan viðkomandi þjónustusvæða þannig að tryggt sé að fjármunirnir séu ekki notaðir til annars. Í samkomulagi ríkis og sveitarfélaga um fjárhagsramma tilfærslu þjónustu við fatlaða er undirritað var 6. júlí 2010 kemur fram að stefnt skuli að því að framlög af fjárlögum falli niður þannig að þjónustan verði alfarið fjármögnuð með útsvari frá og með árinu 2014. Á þeim grundvelli er lagt til að ákvæðið gildi til sama tíma.

Í c-lið er kveðið á um að greiðslur framlaga úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga á árinu 2011 til sveitarfélaga vegna þjónustu við fatlaða taki mið af heimildarákvæði 6. gr. samkomulags ríkis og sveitarfélaga um tilfærslu þjónustu við fatlaða hvað varðar sérstakt aðlögunartímabil þar sem beinar greiðslur til sveitarfélaga og þjónustusvæða byggjast að hluta til eða að öllu leyti á framreiknuðum rekstrarkostnaði ársins 2010.

Framkvæmdin á c-liðnum mun hugsuð þannig að Jöfnunarsjóður reikni út, fyrir hvert sveitarfélag innan þjónustusvæðis, hvað það sveitarfélag hafi átt mikla hlutdeild í rekstrarumfangi hlutaðeigandi svæðisskrifstofu í lok árs 2010. Það hlutfall er fært yfir á brúttófjármagnið sem svæðið fær árið 2011. Frá þessari deilitölu er dregið það sem sveitarfélagið fær með 0,25% (prósentustigunum). Ef sveitarfélag kemur út í mínus, t.d. ef enginn fatlaður notandi er þar við yfirfærsluna þá er reiknað með því að það sveitarfélag skili til þjónustusvæðisins, þeim fjármunum í samræmi við b-liðinn. Þá geta sveitarfélögin einnig samið um að 0,25% fari í gegnum sama ferli og 0,95% óháð því hvernig notendahópurinn dreifist.

Á þessu stigi liggur ekki fyrir hvert fjárframlagið verður til hvers og eins svæðis, en hitt er ljóst að útreiknigrunnurinn miðast við fjárframlög til viðkomandi svæðisskrifstofu án kröfu um 5% hagræðingu, sem byggt var á í upphaflegu frumvarpi til fjárlaga.