19. maí 2010

Hlutfall kvenna aldrei hærra á framboðslistum

  • SIS_Stjornsysla_sveitarfel_760x640

Hlutfall kvenna í framboði til sveitarstjórna er hærra en nokkru sinni áður, eða 1.331 kona á móti 1.515 körlum. Konur eru því 46,8% frambjóðenda. Ef eingöngu eru skoðuð hlutföll kvenna og karla í efstu sætum framboðslista breytist myndin þó umtalsvert.

Hlutfall kvenna í fyrsta sæti framboðslista sem nú bjóða fram er 24,9% á móti 75,1% karla. Konur í öðru sæti framboðslista eru hins vegar 62,2%  en karlar 37,8%. Ef skoðað er hlutfall kvenna og karla í fjórum efstu sætum allra framboðslista kemur í ljós að karlar skipa 55% þessara sæta en hlutfall kvenna er 45%.

Eins og sjá má á eftirfarandi yfirliti hefur hlutfall kvenna í sveitarstjórnum farið stighækkandi frá því í kosningunum 1982 en þá voru aðeins 12,4% prósent einstaklinga á framboðslistum konur.

Kosningar Fjöldi kvenna Hlutfall af heild Fjöldi svf. þar sem er engin kona í sveitarstjórn
2006 189 35,70% 5
2002 205 31,20% 9
1998 213 28,20% 15
1994 243 24,80% 23
1990 243 21,80% 58
1986 225 19,20% 81
1982 148 12,40% 113

Eftir kosningarnar 2006 voru konur í meirihluta í ellefu sveitarstjórnum en árið 2002 voru konur í meirihluta í tíu sveitarstjórnum. Í þeim fjórum sveitarfélögum sem er sjálfkjörið í við þessar kosningar eru konur í meirihluta í einu sveitarfélagi, sem er Tálknafjarðarhreppur.

Óbundin kosning fer nú fram í 18 sveitarfélögum, sem þýðir að þar eru allir kosningabærir íbúar í kjöri.