30. apr. 2010

Alþingi samþykkir lög um fjárhagsskil sveitarfélaga

  • althingi-mynd

Alþingi samþykkti þriðjudaginn 27. apríl breytingu á sveitarstjórnarlögum nr. 45/1998 sem kveða á um að samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra sé heimilt að setja reglugerð sem mæli fyrir um ársfjórðungsleg skil sveitarfélaga á upplýsingum úr bókhaldi sínu og reikningsskilum.

Samgönguráðherra lagði frumvarpið fram í mars en tilgangur þess var að tryggja nauðsynlegar heimildir til þess annars vegar að afla ársfjórðungslega fjármálaupplýsinga frá sveitarfélögum og hins vegar til þess að tryggja betra og markvissara aðgengi eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga að upplýsingum úr bókhaldi og reikningsskilum sveitarfélaga.

Með þessari breytingu á að tryggja að ráðuneyti sveitarstjórnarmála, eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga, aðrir opinberir aðilar og Samband íslenskra sveitarfélaga geti fylgst betur með framvindu og þróun fjármála hjá sveitarfélögunum. Í reglugerð skal nánar mælt fyrir um framsetningu og form slíkra upplýsinga, sem og um rafræn skil þeirra eftir því sem við á.

Ráðuneytið taldi afar mikilvægt að sett yrðu nú þegar sérstök lög um umrædd ákvæði en ekki yrði beðið heildarendurskoðunar á sveitarstjórnarlögum sem nú stendur yfir, enda leggja þau ákveðinn grunn að þeirri endurskipulagningu sem nú er unnið að varðandi samráð ríkis og sveitarfélaga um efnahagsmál. Unnið var að þessari breytingu á sveitarstjórnarlögum í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. Þess má geta að kostnaðarmat við lögin er ófrágengið en þess er vænst að það verði útfært nánar við setningu reglugerðar.