30. mar. 2010

Fyrsti fundur skipulagsmálanefndar

byggingar1_72Skipulagsmálanefnd sambandsins hélt sinn fyrsta fund 25. mars sl. Á fundinum voru m.a. til umfjöllunar drög að umsögnum sambandsins um frumvörp til nýrra skipulagslaga og laga um mannvirki.
Hlutverk nefndarinnar er að vera stjórn og starfsmönnum sambandsins til ráðgjafar í skipulagsmálum, svo sem varðandi fyrirhugaðar lagabreytingar. Einnig fylgist nefndin með þróun umhverfislöggjafar sem tengist skipulagsgerð sveitarfélaga. Verði ákvæði um landsskipulagsstefnu lögfest má vænta þess að nefndin hafi miklu hlutverki að gegna við aðkomu sambandsins að þeirri vinnu.

Nefndin leggur áherslu á að efla upplýsingaflæði milli sambandsins og sveitarfélaga um skipulagsmál og hvetur hún sveitarfélög til þess að skiptast á umsögnum um frumvörp og upplýsa sambandið um afstöðu sína til stefnumarkandi atriða.

Nefndin leggur til fáeinar breytingar á umsögn um frumvarp til skipulagslaga. Einkum er það álit nefndarinnar að staðfesting aðal- og svæðisskipulagsáætlana eigi að vera verkefni Skipulagsstofnunar, eins og lagt var til í fyrri útgáfu frumvarpsins, þótt stofnuninni ætti að vera heimilt að vísa málum til umhverfisráðherra til ákvörðunar þegar sérstök ástæða er til. Jafnframt telur nefndin mikilvægt að lögin kveði skýrt á um það hvort heimilt sé að leggja fram nýjar athugasemdir þegar hinu formlega skipulagsferli er lokið, sbr. 32. gr. Þá telur nefndin að ástæðulaust sé að krefjast þess að skipulagslýsing, sbr. 23., 30. og 40. gr. sé unnin vegna minniháttar breytinga á skipulagi. Slíkrar lýsingar sé fyrst og fremst þörf vegna nýrra skipulagsáætlana og endurskoðunar gildandi áætlana.

Fundargerðir skipulagsmálanefndar.