24. sep. 2014

Eitt af meginverkefnum sveitarstjórnarmanna er að hyggja að framtíðinni

Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, setti XXVIII. landsþing í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri nú laust eftir kl. 16:00 í dag. Í setningarræðu sinni sagði hann m.a. að í upphafi nýs kjörtímabils sé það eitt af meginverkefnum sveitarstjórnarmanna að hyggja að framtíðinni og leggja niður fyrir sér hvernig þeir sjá þróun sveitarstjórnarstigsins og með hvaða hætti á að styrkja og efla þjónustuna við íbúana næstu fjögur árin.

Halldór vék að minnkandi kjörsókn og endurnýjun fulltrúa sem væri mikil eftir kosningarnar 31. maí sl. en sagði það afar jákvætt að konum fjölgar jafnt og þétt í sveitarstjórnum. Hann sagði að mikið væri rætt um rafrænar kosningar í tengslum við sveitarstjórnarkosningarnar:

Rafrænar kosningar eru eflaust ekki sú töfralausn sem við leitum að,  en hinir rafrænu kostir sem við eigum í dag geta á margan hátt auðveldað okkur marga þætti lýðræðisins.

Halldór vék í ræðu sinni að ýmsum málaflokkum sem sveitarfélögin sinna, s.s. fjárhagsstöðu þeirra og sagði það jákvætt að fjárhagur þeirra hefur batnað og sveitarfélög hafað lækkað skuldir. Hann vék að samskiptum ríkis og sveitarfélaga og sagði að ríkisvaldið vissi sem er að sveitarfélögin eru ábyrg í fjármálum og þau eru mikilvægur hluti hins opinbera kerfis. Það er mikilvægt að fara vel með opinbert fé og að landsmenn fái þá þjónustu sem þeir þurfa og að hún sé fjármögnuð á þann hátt að tekjur standi undir útgjöldum.

Hvert er hlutverk sveitarstjórnarfólks?

Við skulum sækja fram. Við skulum þora að gera nauðsynlegar breytingar til að auka hagsæld íbúa okkar sveitarfélaga. Við stöndum frammi fyrir flóknum hlutum. Við þurfum að minnka kerfið en utanaðkomandi aðstæður kalla eftir aukinni þjónustu eins og í öldrunarmálum.

Halldór ræddi um húsnæðismálin, lífeyrissjóðsmálin,atvinnuleysi, fjárhagsaðstoð, ferðaþjónustan, málefni tónlistarskóla, ungmenna og aldraðra og efling sveitarstjórnarstigsins og minnti á að sveitarfélögum hefur fækkað um 130 frá árinu 1950.

Ég tel að við eigum áfram að stefna að sameiningu og eflingu sveitarfélaga. Við þurfum stórar og sterkar einingar á sveitarstjórnarstiginu. Þjónustukrafan eykst stöðugt af hálfu íbúa og við þurfum að nýta skattfé betur.