18. jan. 2011

Hesthús skattleggjast í C-flokki fasteignaskatts

  • SIS_Skipulags_Byggdamal_760x640

Þann 12. janúar sl. kvað Yfirfasteignamatsnefnd upp úrskurð í máli þar sem kærð var álagning fasteignaskatts á hesthús í Sveitarfélaginu Árborg. Nefndin úrskurðaði sveitarfélaginu í vil og komst að þeirri niðurstöðu að hesthús í þéttbýli beri að skattleggja skv. c-lið 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, með síðari breytingum.

Kærandi, sem var eigandi hesthúss í skipulögðu hesthúsahverfi á Selfossi, krafðist þess að fasteignin yrði skattlögð skv. a-lið 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga í stað c-liðar sama ákvæðis. Í málinu var meðal annars byggt á því af hálfu kæranda að eigendur hesthúsa búi við mismunandi skattumhverfi eftir því hvort hesthús þeirra eru í þéttbýli eða á bújörðum og að í því fælist brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og markmiðum samkeppnislaga.

Af hálfu kærða, Sveitarfélagsins Árborgar, var framangreindum sjónarmiðum kæranda hafnað og byggt á því að húsnæði til húsdýrahalds, annars staðar en á bújörðum, eigi undir c-lið 3. mgr. 3. gr. tekjustofnalaga. Jafnframt var byggt á því af hálfu sveitarfélagsins að eðlileg, hlutlæg og málefnaleg rök séu fyrir mismunandi álagningarreglum fasteignaskatts á hesthús eftir staðsetningu þeirra. Eigendur hesthúsa í þéttbýli njóti þannig þjónustu sem ekki sé veitt í dreifbýli.

Í niðurstöðum Yfirfasteignamatsnefndar er byggt á því að fasteignin er innan þéttbýlis, á deiliskipulögðu hesthúsasvæði. Að mati nefndarinnar fellur fasteignin ekki undir upptalningu í a-lið 3. mgr. 3. gr. tekjustofnalaga og verður því að telja að fasteignin falli undir c-lið sama ákvæðis, en í þann gjaldflokk falla allar eignir sem ekki eru taldar upp í a- og b-liðum sama ákvæðis.

Rétt er að taka fram að niðurstaða yfirfasteignamatsnefndar er í samræmi við lagatúlkun sem Samband íslenskra sveitarfélaga hefur veitt einstökum sveitarfélögum sem til þess hafa leitað. Ljóst er hins vegar að framkvæmd álagningar á hesthús hefur verið nokkuð mismunandi eftir sveitarfélögum. Í ljósi þess úrskurðar sem nú liggur fyrir má vænta þess að þau sveitarfélög sem hafa skattlagt þessar eignir skv. a-lið 3. mgr. 3. gr. tekjustofnalaga, muni endurskoða þá framkvæmd.

Úrskurðurinn í heild.