NPA framlenging samþykkt á Alþingi

Alþingi samþykkti 15. desember sl. breytingu á lögum um þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir sem felur í sér að bráðabirgðaákvæði um innleiðingu Notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar (NPA) er framlengt til 31. desember 2024.

Að óbreyttu hefði innleiðingartímabilinu lokið í lok þessa árs, með tilheyrandi óvissu um gildi samninga sem nú eru í gildi um þetta þjónustuform.

Með lagabreytingunni er gengið úr frá því að á árunum 2023 og 2024 verði veitt framlag til að uppfylla efni bráðabirgðaákvæðisins og að samningar um notendastýrða persónulega aðstoð verði allt að 145 á árinu 2023 og allt að 172 á árinu 2024.

Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga um frumvarpið er einkum lögð áhersla á að það tveggja ára svigrúm sem framlenging innleiðingarinnar veitir verði nýtt vel til þess að komast að niðurstöðu um framtíðarfyrirkomulag og fjármögnun þessa þjónustuforms. Enn fremur segir í umsögninni:

„Samþykkt frumvarpsins mun eyða óvissu um gildi þeirra NPA samninga sem nú eru í gildi ásamt því að skapa forsendur til að vinna á biðlistum eftir nýjum samningum, með því að fjármögnun á 25% kostnaðarhlutdeild ríkisins í NPA þjónustu verði tryggð.

Þrátt fyrir framangreint er tilefni til að minna enn og aftur á að til að festa NPA þjónustu varanlega í sessi verður að tryggja að meira fjármagn komi frá ríkinu til að standa undir þessari þjónustu. Ella sitja sveitarfélögin uppi með kostnað vegna NPA samninga sem í mörgum tilvikum er langt umfram það sem gert var ráð fyrir við samþykkt laga nr. 38/2018.

Í stuttu máli er krafa sambandsins f.h. sveitarfélaga að:

  1. Framlag ríkisins hækki úr 25% í 30%
  2. Þegar hjúkrunar- eða umönnunarþörf er verulegur hluti kostnaðar við NPA-samninga komi til aukið framlag frá heilbrigðiskerfinu til að mæta þessari þörf.
  3. Frekari úrbætur er mögulegt að gera til viðbótar framangreindum atriðum. Þar vegur e.t.v. þyngst að sveitarfélögin kalla eftir því að umsýslugjald vegna umfangsmikilla samninga verði lækkað úr 10% í 5%.

Hvað varðar forsendur til þess að bæta þjónustu sveitarfélaga við fatlað fólk minnir sambandið á umsagnir sínar um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2023 og frumvarp til fjáraukalaga 2022 þar sem fram koma upplýsingar um stigvaxandi hallarekstur á málaflokknum. Mikill og augljós vandi er hér til staðar sem ekki verður horft framhjá. Engu að síður virðast ekki vera miklar líkur á að Alþingi stígi inn í við afgreiðslu fjáraukalaga þessa árs. Við það hljóta sveitarfélögin að vera afar ósátt enda mun halli á þessum málaflokki bitna á annarri þjónustu við íbúa, ásamt því að tefja framþróun í málaflokknum.“