Nefndarálit og breytingartillögur við frumvarp um lágmarksíbúafjölda o.fl.

Þann 7. júní var birt nefndarálit ásamt breytingartillögu um frumvarp um breytingar á sveitarstjórnarlögum og lögum um tekjustofna sveitarfélaga.

Lágmarksíbúafjöldi í sveitarfélögum er eitt af þeim atriðum sem fjallað er um í nefndaráliti og breytingartillögum við frumvarp um breytingar á sveitarstjórnarlögum.

Drög að breytingartillögum höfðu verið sendar öllum sveitarfélögum til umsagnar í maí. Af því tilefni sendi sambandið viðbótarumsögn dags. 10. maí sl. þar sem lagðar voru til nokkrar breytingar á drögum að tillögum nefndarinnar, í þeim tilgangi að gera orðalag breytingartillagna skýrara. Tekið hefur verið nokkurt tillit til þeirra ábendinga í því nefndaráliti og tillögum sem nú hafa verið birtar á vef Alþingis.

Helstu niðurstöður í nefndaráliti

Í stuttu máli er niðurstaða umfjöllunar umhverfis- og samgöngunefndar sú að ágæt sátt sé um það meginmarkmið frumvarpsins að auka sjálfbærni sveitarfélaga og efla sveitarstjórnarstigið í heild Hins vegar hafi þónokkur hluti sveitarfélaga lýst mikilli andstöðu við þau ákvæði frumvarpsins sem kveða á um að ráðherra hafi frumkvæði að sameiningum sveitarfélaga í þeim tilvikum þar sem sveitarfélag nær ekki lágmarksstærð. Meiri hlutinn telur afar mikilvægt að unnið verði að þessu máli með áherslu á breiða samstöðu um þær leiðir sem fara skuli til að efla sveitarstjórnarstigið. Með það að leiðarljósi leggur meiri hlutinn til að ákvæði um lágmarksíbúafjölda og frumkvæði ráðherra um sameiningu sveitarfélaga sem ekki uppfylla það ákvæði falli brott og í stað þeirra komi nýtt ákvæði sem verði 1. gr. frumvarpsins.

Meiri hlutinn leggur til að í stað þess að kveða á um að lágmarksíbúafjöldi sveitarfélags skuli vera 1.000 íbúar verði í 1. mgr. 1. gr. frv. kveðið á um þá almennu stefnumörkun að stefna skuli að því að lágmarksstærð sveitarfélags verði 1.000 íbúar. Þannig verði stuðlað að aukinni sjálfbærni sveitarfélaga og geta þeirra til að annast lögbundin verkefni tryggð.

Meiri hlutinn telur rétt að skylda til að hefja sameiningarviðræður eða vinna álit um stöðu sveitarfélags komi til framkvæmda í skrefum þannig að hún virkist gagnvart sveitarfélögum með færri en 250 íbúa við sveitarstjórnarkosningar 2022 en komi að fullu til framkvæmda við kosningar fjórum árum síðar árið 2026, sbr. bráðabirgðaákvæði.

Skyldur sveitarfélaga sem ekki uppfylla lágmarksstærð

Lagt er til að í 2. mgr. 1. gr. verði kveðið á um að sveitarstjórn sveitarfélags sem ekki nær lágmarksstærð beri að leitast við að ná markmiðum um aukna sjálfbærni sveitarfélaga og tryggja getu þess til að annast lögbundin verkefni.

Til þess að ná þeim markmiðum geti sveitarstjórn annaðhvort hafið formlegar sameiningarviðræður á grundvelli 119. gr. sveitarstjórnarlaga eða látið vinna álit um stöðu sveitarfélagsins og sameiningarkosti þess. Álitið skuli sent ráðuneytinu til umsagnar og síðan kynnt íbúum sveitarfélagsins ásamt umsögn ráðuneytisins. Eftir að álitsgerðin liggur fyrir ber sveitarstjórn að taka formlega afstöðu til þess hvort rétt sé að hefja sameiningarviðræður og hafa um sameininguna tvær umræður skv. 18. gr. sveitarstjórnarlaga.

Skylda samkvæmt ákvæðinu virkjast við hverjar sveitarstjórnarkosningar og ber því sveitarstjórn sveitarfélags sem hefur færri en 1.000 íbúa við kosningar að hefja sameiningarviðræður eða láta vinna álitsgerð eftir kosningar óháð því hvort fyrir liggi eldri álitsgerð af sama meiði eða hvort slíkar viðræður hafi áður farið fram.

Eftirlit ráðuneytisins

Í 3. og 4. mgr. 1. gr. leggur meiri hlutinn til ákvæði þess efnis að ráðherra setji með auglýsingu leiðbeiningar um þau atriði sem fram þurfi að koma í áliti sveitarfélags. Tilgangur álitsgerðarinnar er að taka saman nægilegar upplýsingar fyrir sveitarstjórnarmenn og íbúa sveitarfélagsins svo að ákvörðun þeirra byggist á fullnægjandi upplýsingum.

Þá leggur meiri hlutinn til nýtt ákvæði þess efnis að álitið skuli sent ráðuneytinu til umsagnar og síðan kynnt íbúum sveitarfélagsins með fullnægjandi hætti ásamt umsögn ráðuneytisins. Að því loknu skuli sveitarstjórn taka ákvörðun um hvort hefja eigi sameiningarviðræður á grundvelli 119. gr. og hafa um sameininguna tvær umræður skv. 1. mgr. 18. gr. sveitarstjórnarlaga.

Þannig er gert ráð fyrir að ráðuneytið hafi sérstakt eftirlitshlutverk vegna álitsgerðarinnar, m.a. að hún sé unnin innan lögbundinna tímamarka og að í henni komi fram réttar upplýsingar og sjónarmið sem fram eiga að koma samkvæmt leiðbeiningum ráðuneytisins. Að öðru leyti er ráðuneytinu veitt töluvert svigrúm við gerð umsagnar sinnar og ekkert sem mælir því í mót að ráðuneytið láti í ljós afstöðu sína um sjálfbærni sveitarfélagsins og getu þess til að sinna lögbundnum verkefnum, telji það ástæðu til.

Komi til þess að ráðuneytið telji að álitsgerð sveitarfélags uppfylli ekki á neinn hátt ákvæði laganna eða leiðbeiningar ráðuneytisins hefur ráðuneytið því heimild til að taka slíkt mál til formlegrar umfjöllunar og eftir atvikum gefa sveitarfélagi fyrirmæli um að vinna slíka álitsgerð með fullnægjandi hætti.

Aðkoma íbúa

Meiri hlutinn leggur áherslu á að íbúar geti nálgast hvort tveggja álitsgerðina og umsögn ráðuneytisins á aðgengilegan hátt, t.d. þar sem sveitarfélagið birtir fundargerðir sínar. Einnig er lagt til nýtt ákvæði í 5. mgr. 1. gr. um að taki sveitarstjórn ákvörðun um að hefja ekki sameiningarviðræður geti 10% af þeim sem kosningarrétt eiga í sveitarfélagi óskað almennrar atkvæðagreiðslu um ákvörðun sveitarstjórnar hafi slík atkvæðagreiðsla ekki þegar farið fram. Sveitarstjórn skuli verða við ósk íbúa eigi síðar en innan sex mánaða frá því að hún berst og skuli niðurstaða atkvæðagreiðslunnar vera bindandi fyrir sveitarstjórn.

Skv. 2. mgr. 108. gr. sveitarstjórnarlaga geta 20% af þeim sem kosningarrétt eiga í sveitarfélagi óskað almennrar atkvæðagreiðslu og ber sveitarstjórn að verða við því eigi síðar en innan árs frá því að slík ósk berst. Í ljósi markmiðs laganna um lágmarksíbúafjölda telur meiri hlutinn rétt að hlutfallið sé lægra en hið almenna viðmið laganna.

Fjárhagslegur stuðningur við sameiningu sveitarfélaga.

Fram kom í nokkrum umsögnum að brýnt væri að fjárframlög til sameiningar sveitarfélaga í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga væru tryggðar til lengri tíma og að ekki yrði um að ræða skerðingu á öðrum framlögum til sveitarfélaga til að fjármagna greiðslur vegna sameiningar. Meiri hlutinn tekur undir það og leggur áherslu á að ríkisstjórnin og Samband íslenskra sveitarfélaga vinni sameiginlega að því að tryggja fjármögnun sameiningar sveitarfélaga. Meiri hlutinn vísar einnig til 2. tölul. aðgerðaáætlunar í ályktun Alþingis nr. 21/150 um að stuðningur við sameiningu sveitarfélaga verði stóraukinn.