Nefnd skipuð um stofnun þjóðgarðs á hálendinu

Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur skipað þverpólítíska nefnd um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu. Í nefndinni eiga sæti fulltrúar allra þingflokka á Alþingi auk tveggja fulltrúa sveitarfélaga, þeim Valtý Valtýssyni, sveitarstjóra í Bláskógabyggð og Dagbjörtu Jónsdóttur, sveitarstjóra Þingeyjarsveitar. Þá sitja fulltrúar frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og forsætisráðuneytinu í nefndinni.

Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur skipað þverpólítíska nefnd um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu. Í nefndinni eiga sæti fulltrúar allra þingflokka á Alþingi auk tveggja fulltrúa sveitarfélaga, þeim Valtý Valtýssyni, sveitarstjóra í Bláskógabyggð og Dagbjörtu Jónsdóttur, sveitarstjóra Þingeyjarsveitar. Þá eiga einnig sæti í nefndinni fulltrúar frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og forsætisráðuneytinu.

Nefndinni er í megindráttum ætlað að skilgreina mörk þjóðgarðsins og setja fram áherslur um skiptingu landsvæða innan hans í verndarflokka. Einnig mun hún fjalla um hugsanlegar aðkomuleiðir, þjónustumiðstöðvar, svæðisskiptingu og rekstrarsvæði, auk þess að greina tækifæri sem stofnun þjóðgarðs kann að fela í sér fyrir byggðaþróun og atvinnulíf. Þá hefur nefndinni verið falið að móta stjórnunar- og verndaráætlanir og atvinnustefnu fyrir þjóðgarðinn ásamt lagafrumvarpi, þar sem tekin verður m.a. afstaða til stjórnskipulags þjóðgarðsins.

Nefndin er skipuð eftirtöldum aðilum:

  • Óli Halldórsson, formaður, skipaður af umhverfis- og auðlindaráðherra án tilnefningar
  • Líneik Anna Sævarsdóttir, tilnefnd af þingflokki Framsóknarflokks
  • Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, tilnefnd af þingflokki Samfylkingar
  • Halldóra Mogensen, tilnefnd af þingflokki Pírata
  • Bergþór Ólason, tilnefndur af þingflokki Miðflokks
  • Ólafur Ísleifsson, tilnefndur af þingflokki Flokks fólksins
  • Hanna Katrín Friðriksson, tilnefnd af þingflokki Viðreisnar
  • Steingrímur J. Sigfússon, tilnefndur af þingflokki Vinstrihreyfingar - græns framboðs
  • Vilhjálmur Árnason, tilnefndur af þingflokki Sjálfstæðisflokks
  • Valtýr Valtýsson og Dagbjört Jónsdóttir, tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga
  • Margrét Hallgrímsdóttir, tilnefnd af forsætisráðuneyti

Starfsmaður nefndarinnar er Steinar Kaldal, umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Haft verður samráð við helstu hagsmunaaðila og almannasamtök að því er fram kemur í frétt á vef stjórnarráðsins, s.s. í náttúruvernd, útivist, ferðaþjónustu, landbúnaði og orkumálum.

HalendidLjósm. halendi.is