Mikil umræða um móttöku flóttafólks og hælisleitenda

Mikil umræða var um móttöku flóttafólks og hælisleitenda á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga sem fór fram 31. mars sl. og voru þrír fyrirlestrar helgaðir því máli.

Annars vegar í fyrirlestri Guðmundar Inga Guðbrandssonar, félags- og vinnumarkaðsráðherra, og hins vegar í örerindum Ástu Stefánsdóttur, sveitarstjóra í Bláskógabyggð, og Ástu Kristínu Guðmundsdóttur teymisstjóra alþjóðateymis hjá Reykjanesbæ. 

Svo stiklað sér á stóru í ræðu ráðherra þá fór Guðmundur Ingi fór í upphafi yfir stöðuna á alþjóðavísu en aldrei hafa fleiri verið á flótta í heiminum en nú, 100 milljóna múrinn var rofinn um mitt ár 2022. 

Flest flóttafólk flýr til nágrannaríkja og álagið er því mest í fátækari löndum heims. „Það eru ekki mörg Evrópuríki á meðal þeirra landa þar sem flóttafólk er flest, þó er Pólland á lista yfir þau fimm lönd sem hýsa flest flóttafólk en sú staða er tilkomin eftir innrás Rússa í Úkraínu,“ sagði Guðmundur en listi þeirra fimm ríkja sem flest flóttafólk hefur leitað til er eftirfarandi: 

  • Tyrkland 3,6 milljónir
  • Jórdanía 3 milljónir
  • Kólumbía 1,8 milljónir 
  • Pakistan 1,5 milljón
  • Pólland 1,5 milljón

Guðmundur Ingi fór því næst yfir stöðuna á Íslandi en hingað bárust 4495 umsóknir árið 2022 og fengu 3455 þeirra vernd hér á landi. Það sem af er þessu ári hafa 1393 umsóknir borist, eða helmingi fleiri en allt árið 2021. Af þessum umsóknum sem hafa borist á árinu eru 500 frá Úkraínu en um 630 frá Venesúela. 

Hlutfall barna á meðal umsækjenda var 23% í fyrra en hefur lækkað lítillega á fyrstu mánuðum þessa árs og nemur nú um 20%. 

Kynjahlutföll umsækjenda eru nokkuð jöfn hér á landi utan þess að 60% flóttafólks frá Úkraínu eru konur þar sem karlar eiga erfitt með að komast úr landi vegna herkvaðningar. 

Guðmundur Ingi minnti á að í flóttafólki byggi mannauður og seigla og mikilvægt væri að taka vel á móti því til að þau næðu rótfestu í nýju landi og þar gegni nærsamfélagið lykilhlutverki. 

Innflytjendur á Íslandi sé orðir 61.148 eða 16,3% mannfjölda landsins, sé miðað við tölur frá byrjun árs 2022. Það sé tvöföldun á hlutfalli innflytjenda frá árinu 2012 þegar hlutfall þeirra var um 8% mannfjöldans Íslands. 

Í undirbúningi væri sérstök aðgerðaráætlun um mótun á  samræmdu verklagi um móttöku, kennslu og þjónustu við börn með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn, þvert á skólakerfi og þjónustukerfi. Aðgerðaráætlunin yrði unnin undir forystu mennta- og barnamálaráðuneytisins en í ríku samráði við viðeigandi ráðuneyti, stofnanir, sveitarfélög, kennara, annað starfsfólk skóla, foreldra og börn. Nauðsynlegt væri fyrir kerfin og þjónustuveitendur að aðlaga sig breyttum aðstæðum en eðlilega væru þau almennt ekki undirbúin fyrir álagið. „Margt hefur gengið vel, sérstaklega ef horft er til þess gríðarlega álags en betur má ef duga skal. Það er brýnt að styrkja kerfin okkar og samræma verklag.“

Guðmundur Ingi sagði að atvinnuþátttaka innflytjenda væri 86% hér á landi sem væri mun hærra en þekktist á öðrum Norðurlöndum. Allt bendi til þess að atvinnuþátttaka flóttafólks hér á landi sé mikil miðað við tölur sem sjáist á útgefnum atvinnuleyfum til ríkisborgara Venesúela og Úkraínu. 

„Við höfum ekkert val um að gera þetta eða gera þetta ekki“

Það sé fyrirséð að íbúafjölgun á Íslandi á næstu árum verði keyrð áfram af innflytjendum enda dragi mjög úr náttúrulegri fjölgun Íslendinga. Því sé mikilvægt að sveitarfélög móti sér stefnu um fjölmenningu og hafi virkar móttökuáætlanir fyrir nýja íbúa. 

Sagði Guðmundur að stefnt sé að því að sameina Vinnumálastofnun og Fjölmenningarsetur. Meginmarkmið sameiningar væri að styrkja stjórnsýsluna með styrkri stjórnsýslustofnun þar sem innflytjendur, flóttafólk og umsækjendur um alþjóðlega vernd geti leitað á einn og sama stað eftir þjónustu. 

Þá sagði Guðmundur Ingi að verið væri að skrifa undir samninga við sveitarfélög um samræmda móttöku. Þegar hefðu 11 sveitarfélög, víðs vegar um landið, skrifað undir. Samtals hafi sveitarfélögin samþykkt að taka á móti 2908 manns að hámarki. 

Guðmundur fór því næst yfir greiningu á þolmörkum innviða. Ráðuneytið legði áherslu á að staða sé greind hjá sveitarfélögum og stjórnvöldum í tengslum við móttöku flóttafólks vegna þeirrar fjölgunar sem hefur verið undanfarið á umsóknum um alþjóðlega vernd, svo sem í tengslum við skólakerfi, vinnumarkað og heilbrigðiskerfi. Nefndi hann að á sumum stöðum væri orðið sérlega mikið álag, svo sem í Reykjanesbæ. 

„Fjárfesting í þessum börnum er eitt það mikilvægasta sem við gerum í þessum málum,“ sagði Guðmundur Ingi og bætti við. „Við höfum ekkert val um að gera þetta eða gera þetta ekki.“