Markmið ESB um sjálfbærni og orkunýtingu bygginga

Framkvæmdastjórn ESB leggur mikla áherslu á að ráðist verði í auknar aðgerðir varðandi sjálfbærni og orkunýtni bygginga. Á þessu ári fer fram samráð við hlutaðeigandi aðila varðandi málið, hversu langt eigi að ganga, hversu hratt og hvað skili mestum árangri.

Hér er um að ræða mikilvægt mál fyrir evrópsk sveitarfélög, þar sem mikill fjöldi bygginga heyra undir þau og því ljóst að kvaðir um sjálfbærni og orkunýtingu geta haft í för með sér gríðarlegan kostnað fyrir sveitarfélög.

Framkvæmdastjórn ESB kynnti þann 14. október 2020 helstu áherslur ESB í þessum efnum. Markmiðið er að tvöfalda fyrri áætlanir um endurnýjun bygginga og að tryggja að þær skili tilætluðum árangri við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þá er markmiðið einnig að bæta lífsgæði og vinnuskilyrði þeirra sem búa eða vinna í þessum byggingum, tryggja betri nýtingu náttúruauðlinda og aukna notkun stafrænna lausna.

Af þessu tilefni sagði Frans Timmermans, varaforseti framkvæmdastjórnar ESB, að Evrópubúum eigi að vera kleift að kveikja á ljósum, kæli- og hitakerfum án þess að setja fjárhag fólks eða líf á jörðinni í uppnám.

Stefnt er að því að endurnýja 35 milljónir bygginga innan ESB eigi síðar en árið 2030 og að samfara því verði til 160 þúsund ný störf í Evrópu.

Meðal þeirra aðgerða sem framkvæmdastjórn ESB stefnir á má nefna:

  • Auknar kröfur varðandi orkunýtni bygginga.
  • Aukið aðgengi að fjármagni vegna endurnýjunar bygginga.
  • Aukin menntun og starfsþjálfun í tengslum við „græn störf“.
  • Stuðningur við sjálfbærar og stafrænar lausnir innan byggingageirans.
  • Hvatar fyrir bæjar- og hverfafélög sem stefna á „orku-hlutleysi“.
  • Auknir möguleikar á að selja afgangsraforku inn á almenna raforkukerfið.

Hagsmunasamtök evrópskra sveitarfélaga, CEMR, leggja mikla áherslu á að evrópsk sveitarfélög séu höfð með í ráðum á öllum stigum þessa máls. Þá hefur CEMR bent á að tryggja þurfi jafnvægi á milli loftslagsmarkmiða og félagslegra markmiða ESB og að sveitarfélögum standi til boða fjármagn úr sjóðum ESB til að fjármagna aðgerðir sem þessar.

Hvað Ísland varðar þá er staðan allt önnur hér á landi þar sem t.d. bæði raforka og húshitun er loftslagsvæn. Engu að síður er mikilvægt að íslensk stjórnvöld fylgist vel með þessum málum og að tryggt sé að Ísland taki ekki á sig skuldbindingar sem eru ekki í samræmi við þær aðstæður sem hér ríkja.

Sérfræðingahópur á vegum CEMR mun funda um málið í nóvember með fulltrúum framkvæmdastjórnar ESB og sérfræðingar Sambands íslenskra sveitarfélaga munu taka þátt í þeim fundi