Margnota er málið

Átakið „Plastlaus september“ er nú í fullum gangi. Er þetta í þriðja sinn sem átakið er haldið og hefur þátttaka farið vel af stað. Markmið verkefnisins er að vekja fólk til umhugsunar um platsnotkun og leiðir til þess að minnka notkun plasts.

Plastlaus september er rétt hálfnaður. Átakinu er ætlað að hvetja alla til að minnka notkun á einnota plasti. Þetta er þriðja sinn sem átakið er haldið og hefur þátttaka farið fram úr björtustu vonum og æ fleiri sem eru farnir að átta sig á skaðsemi einnota plasts fyrir umhverfið. Tilgangur verkefnisins er að vekja fólk til umhugsunar um plastnotkun og þann plastúrgang sem fellur til dagsdaglega og leita leiða til að minnka notkunina. Plast er nánast órjúfanlegur hluti af daglegu lífi fólks og var algjör bylting þegar það kom fyrst til sögunnar, t.d. í heilbrigðisgeiranum. Plasti hefur m.a. þá kosti að það getur létt bæði flutningsvarning og farartæki og aukið endingu matvæla til mikilla muna. Plast er hins vegar oft notað í miklu óhófi og auðveldlega má minnka notkun á því sér í lagi hvað varðar einnota umbúðir. Gríðarlegt magn af einnota plasti er urðað eða endar í hafinu sem er mikið áhyggjuefni. Framleiðsla á plasti hófst fyrir alvöru upp úr 1950 og allt plast sem hefur verið framleitt síðan þá og hefur ekki farið til brennslu er enn til. Plastið brotnar niður í smærri einingar en eyðist ekki. Örplast hefur sem dæmi fundist í neysluvatni á Íslandi.

Sveitarfélög geta auðveldað plastlausan lífsstíl

Sveitarfélög hafa lagt átakinu lið frá byrjun með ýmsum uppákomum og viðburðum. Aðgerðir þeirra og ákvarðanir hafa mikil áhrif nær samfélagið og því gegna þau lykilhlutverki í að draga úr plastaustri í samfélaginu. Sveitarfélög geta gengið á undan með góðu fordæmi og sett sér markmið um að lágmarka plastnotkun. Þau geta einnig auglýst átakið eftir sínum miðlum og hvatt alla til þátttöku og minnt í leiðinni á leiðir til að draga úr plastnotkun. Á heimasíðu átaksins, www.plastlausseptember.is er að finna leiðir til að stunda plastlausan lífsstíl með einföldum hætti, s.s. í matarinnkaupum, við kaup á snyrti- og hreinlætisvörum og í samgöngum. Sveitarfélög og stofnanir þeirra geta sett sér markmið með sýnilegum hætti og hvatt þannig aðra til að gera slíkt hið sama með því að hengja upp veggspjald, sem er að finna á heimasíðu átaksins, með þeim aðgerðum sem ákveðið hefur verið að ráðast í. Sveitarfélög á Snæfellsnesi hafa tekið virkan þátt í átakinu undir merkjunum ,,Margnota Snæfellsnes“ og hafa hvatt bæði íbúa og rekstraraðila á svæðinu til að gera slíkt hið saman.