Mannvirki og þjónusta á hálendinu kortlögð

Út er komin skýrslan Mannvirki á miðhálendinu, sem greinir frá mannvirkjum og þjónustu á miðhálendinu. Kemur þar m.a. fram að tæplega 600 byggingar tengdar ferðaþjónustu dreifist á tæplega 200 staði á miðhálendinu. Þá er yfirgnæfandi fjöldi ferðaþjónustubygginga litlir fjallaskálar, sem eru 50 m2 eða minni að stærð.

Út er komin skýrslan Mannvirki á miðhálendinu, sem greinir frá mannvirkjum og þjónustu á miðhálendinu. Kemur þar m.a. fram að tæplega 600 byggingar tengdar ferðaþjónustu dreifist á tæplega 200 staði á miðhálendinu. Þá er yfirgnæfandi fjöldi ferðaþjónustubygginga litlir fjallaskálar, sem eru 50 m2 eða minni að stærð.

Einnig eru teknar saman upplýsingar um virkjanir og orkuflutningsmannvirki, en stærstu vatnsaflsvirkjanir landsins liggja í heild eða að hluta innan marka miðhálendisins. Jafnframt liggja innan þeirra marka háspennulínur og byggðalína að hluta. Fjarskiptamannvirki eru jafnframt á rúmlega 20 stöðum á miðhálendinu. Í flestum tilfellum er um að ræða mastur og lítið hús undir tæknibúnað.

Þá er í skýrslunni tekið saman yfirlit yfir þann hluta vegakerfis miðhálendisins sem tilheyrir þjóðvegakerfinu. Er þar yfirleitt um að ræða, einfalda malarvegi eða vegslóða, sem sumir hverjir eru torfærir og með óbrúuðum ám. Örfáir vegir sem liggja um eða inn á miðhálendið eru með bundnu slitlagi.

Skipulagsstofnun er í Landsskipulagsstefnu 2015-2026 falið að gera skýrsluna í samstarfi við Þjóðskrá Íslands og sveitarfélögin á miðhálendinu.

Tilgangur skýrslugerðarinnar er að gefa heildstæða yfirsýn yfir núverandi húsakost og þjónustuframboð á miðhálendinu, sem er jafnframt forsenda fyrir frekari stefnumótun vegna skipulagsmála á svæðinu. Stuðst er við fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands og gögn frá sveitarfélögum á miðhálendinu, auk upplýsinga frá öðrum stofnunum, félagasamtökum og einstaklingum og úr rituðum heimildum.