Málþing um samráð ríkis og sveitarfélaga haldið í Brussel

Samband íslenskra sveitarfélaga stóð að málþingi um samráð ríkis og sveitarfélaga 15. maí sl. í Brussel, í samstarfi við systursveitarfélagasambönd Austurríkis, Svíþjóðar, Skotlands, Hollands, Ítalíu og Danmerkur. 

Samband íslenskra sveitarfélaga stóð að málþingi um samráð ríkis og sveitarfélaga 15. maí sl. í Brussel í samstarfi við systursveitarfélagasambönd Austurríkis, Svíþjóðar, Skotlands, Hollands, Ítalíu og Danmerkur. 

Á þinginu var fjallað um samráð ríkis og sveitarfélaga þegar kemur að löggjöf og stefnumótun innanlands en einnig hagsmunagæslu gagnvart ESB og innleiðingu EES-löggjafar. Markmið fundarins var að varpa ljósi á hvernig samráði er háttað á Evrópuvísu og vekja athygli á fyrirmyndarfyrirkomulagi sem leggja má til grundvallar við stefnumótun og þróun samráðs í EES-ríkjum en einnig á vettvangi ESB. 

Guðjón Bragason, sviðsstjóri lögfræði- og velferðarsviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga, sagði frá samráði ríkis og sveitarfélaga á Íslandi en nokkuð óvenjulegt er að samráð sé lögbundið við sveitarfélagasamband eins og gert er með íslensku sveitarstjórnarlögunum.  Samráðsfyrirkomulagið er mjög mismunandi eftir löndum.