Á dagskrá Alþingis í dag er 1. umræða um frumvarp til laga um breytingar á sveitarstjórnarlögum og lögum um tekjustofna sveitarfélaga.
Efni frumvarpsins er í aðalatriðum tvískipt. Annars vegar eru þau ákvæði sem hafa þann tilgang að mæla fyrir um lágmarksíbúafjölda sveitarfélaga, aðlögun að slíku lágmarki og hvernig málsmeðferð skuli háttað þegar ráðherra hefur frumkvæði að sameiningu sveitarfélaga. Hins vegar tengjast önnur ákvæði frumvarpsins sameiningu sveitarfélaga, svo sem ákvæði sem skýrir og eykur heimildir sveitarfélaga til að nýta fjarfundarbúnað á fundum sínum. Einnig er lagt til að sveitarfélög þurfi að móta stefnu um þjónustustig byggða sem eru fjarri stærri byggðakjörnum. Að auki eru lagðar til ýmsar aðrar breytingar sem hafa þann tilgang að draga úr lagahindrunum við sameiningu sveitarfélaga.
Í frumvarpinu er tillaga um nýtt ákvæði til bráðabirgða í lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, sem hefur þann tilgang að veita Jöfnunarsjóði sveitarfélaga heimild til að halda eftir allt að 1 milljarði kr. af tekjum sjóðsins á hverju ári á tímabilinu 2020–2035 til að safna í sjóð sem nýttur verður til að veita sameiningarframlög til sveitarfélaga. Við þetta ákvæði hefur sambandið gert verulegar athugasemdir og lagt áherslu á að nýtt fjármagn þurfi að koma frá ríkinu til að fjármagna þetta verkefni jöfnunarsjóðs. Við þeirri gagnrýni hefur að hluta verið brugðist í frumvarpi til fjárlaga 2021 en á þessu stigi er óljóst um fjármögnun sameiningarframlaga til lengri tíma litið.