Mælaborð um stöðu aðgerða í forvarnaáætlun

Forsætisráðuneytið hefur birt á vefsíðu sinni mælaborð aðgerða samkvæmt forvarnaáætlun gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni meðal barna sem Alþingi samþykkti á síðasta ári.

Markmiðið með mælaborðinu er að fylgja eftir þeim aðgerðum sem kveðið er á um áætluninni en þær eru 26 talsins og skipt niður í sex meginþætti. Mælaborðið verður uppfært reglulega í samræmi við framgang aðgerða.

Meginmarkmið áætlunarinnar er að forvarnir á þessu sviði verði samþættar inn í skólastefnu og kennslu í grunnskólum og leikskólum. Sveitarfélög og stofnanir þeirra bera því mikla ábyrgð á framgangi aðgerða og njóta stuðnings forvarnafulltrúa, Ölfu Drafnar Jóhannsdóttur, sem hefur verið ráðinn til Sambands íslenskra sveitarfélaga á grundvelli áætlunarinnar.