Lúðvík Geirsson nýr formaður Hafnasambands Íslands

Lúðvík Geirsson, hafnarstjóri Hafnarfjarðarhafnar, var kjörinn formaður Hafnasambands Íslands á hafnasambandsþingi sem haldið var fyrr í dag. Var þetta fyrsta rafræna hafnasambandsþingið í rúmlega 50 ára sögu hafnasambandsins og var Lúðvík kjörinn með 97,3% greiddra atkvæða.

Lúðvík Geirsson, hafnarstjóri Hafnarfjarðarhafnar, var kjörinn formaður Hafnasambands Íslands á hafnasambandsþingi sem haldið var fyrr í dag. Var þetta fyrsta rafræna hafnasambandsþingið í rúmlega 50 ára sögu hafnasambandsins og var Lúðvík kjörinn með 97,3% greiddra atkvæða.

Tekur Lúðvík við af Gísla Gíslasyni sem hefur verið formaður hafnasambandsins frá árinu 2004 en Gísli bauð sig ekki fram að nýju þar sem hann hefur látið af störfum sem hafnarstjóri Faxaflóahafna. 

Lúðvík hefur víðtæka reynslu af hafnamálum en hann hefur verið hafnarstjóri Hafnarfjarðarhafnar frá árinu 2016. Þá sat hann á þingi 2011-2013 og var bæjarstjóri Hafnarfjarðarkaupstaðar 2002-2010.

Lúðvík þakkaði traustið á þinginu og tók fram að það yrði ekki auðvelt að feta fótspor fyrrum formanns. „Við búum vel að því í hafnasambandinu, að það hefur ekki eingöngu skilað góðu búi, heldur líka góðu og samhentu liði sem hefur unnið einstaklega vel saman á liðnu árum.  Stjórnin er vel tengd vítt og breitt um landið og hefur góða innsýn í dagleg störf og þau viðfangsefni sem við erum að takast á við á degi hverjum.“

Lúðvík lagði áherslu á að halda áfram á sömu braut og að hann muni leggja sitt af mörkum til að tryggja áfram gott samstarf og góðar tengingar og upplýsingamiðlun til aðildarhafna og samstarfsaðila.

Aðalmenn í stjórn

  • Lúðvík Geirsson, Hafnarfjarðarhöfn, formaður
  • Magnús Þór Ásmundsson, Faxaflóahafnir
  • Guðmundur Kristjánsson, Hafnir Ísafjarðarbæjar
  • Eydís Ásbjörnsdóttir, Fjarðabyggðarhafnir
  • Pétur Ólafsson, Hafnasamlag Norðurlands
  • Rebekka Hilmarsdóttir, Hafnir Vesturbyggðar
  • Hanna Björg Konráðsdóttir, Reykjaneshöfn

Varamenn í stjórn

  • Björn Arnaldsson, Hafnir Snæfellsbæjar
  • Ólafur Snorrason, Vestmannaeyjahöfn
  • Alexandra Jóhannesdóttir, Skagastrandarhöfn