Við verðum öll að leggja okkar af mörkum í baráttunni gegn hlýnun jarðar, sagði Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélga, í lokaorðum sínum á byggðaráðstefnu 2018, sem lauk á Stykkishólmi í gær. Þá er ekki síður brýnt, að samkomulag takist hjá þjóðinni um þá aðferðafræði sem stuðst verður við til að ákveða hvernig innviðauppbyggingu næstu ára verður háttað.
Við verðum öll að leggja okkar af mörkum í baráttunni gegn hlýnun jarðar, sagði Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, í lokaorðum sínum á byggðaráðstefnu 2018 í gær.
Sú vá sem steðjar að okkur og jarðarbúum öllum vegna hlýnunar loftslags leggur okkur þær skyldur á herðar að við leggjum hvert um sig lóð okkar á vogarskálar baráttunnar gegn hnattrænni hlýnun.
Þá er ekki síður brýnt, að samkomulag takist hjá þjóðinni um þá aðferðafræði sem verður notuð til að ákveða hvernig innviðauppbyggingu skuli háttað. Svo mikilvæg mál mega, að sögn Aldísar, ekki veltast um án þess að niðurstaða fáist, jafnvel áratugum saman. Slíkt vinnulag gangi ekki.
Af öðru sem kom fram í máli Aldísar má nefna ljósleiðaravæðinguna, sem nú stendur yfir. Um sé að ræða, eitt metnaðarfyllsta byggðaþróunarverkefni sem hrint hefur verið í framkvæmd í samstarfi við sveitarfélögin og skipt getur sköpum fyrir landsbyggðirnar með hliðsjón af framförum síðustu ára í upplýsingatækni, drifkröftum fjórðu iðnbyltingarinnar.
Fjórða iðnbyltingin er hafin og við getum stolt tekið þátt í henni, óháð búsetu.
Í byggðaþróunarmálum verður jafnframt, að sögn Aldísar, að huga betur að öflun áreiðanlegra og sundurgreinanlegra upplýsinga. Forsenda blómlegra byggða um allt land sé, að stjórnvöld beiti sér fyrir því, að jafna eins og kostur sé tækifæri til fjölbreyttrar atvinnustarfsemi.
Við vitum að þróun mála er ekki sú sama um allt land. Það vantar upp á að við höfum nákvæmari upplýsingar greindar niður á svæði, t.d. dæmis varðandi hagvöxt og tekjur einstaklinga og fyrirtækja. Þessu miðar í rétta átt en engu að síður þarf að gera betur. Öll nákvæm greining byggir á traustum upplýsingum og þær þurfum við að hafa aðgengilegar.
Einnig áréttaði Aldís þann vilja sambandsins, að styðja enn betur við þróun byggðamála og valdeflingu í héruðum landsins. Þessari stefnu hafi sambandið fylgt eftir m.a. með því að styðja af þunga við þróun sóknaráætlana landshlutanna. Þá fagnaði hún því, að byggðamál hafi verið færð til ráðuneytis sveitarstjórnarmála.
Við höfum lengi verið þeirrar skoðunar að breyting í þessa veru myndi efla málaflokkinn og nú, þegar þessi breyting er orðin að veruleika, efumst við ekki um að það muni auka mjög tengsl byggðamála við sambandið og sveitarfélögin.
Aldís færði svo þakkir fyrir vel heppnaða byggðaráðstefnu og brýndi Byggðastofnun til enn frekari dáða.
Byggðastofnun sinnir fjölmörgum mikilvægum störfum, og að það starf fari fram í svo öflugri og vel mannaðri stofnun sem staðsett er á landsbyggðinni, er dæmi um hversu vel getur tekist til við að starfrækja ríkisstofnanir utan höfuðborgarsvæðisins.
Byggðaráðstefnan 2018 fór fram á Stykkishólmi dagana 16. og 17. október undir yfirskriftinni Byggðaþróun og umhverfismál, hvernig getur blómleg byggð og náttúruvernd farið saman?
Erindi flutti fjöldi fræðimanna og sérfræðinga, þ. á m. Ásdís Hlökk Theodórsdóttir, forstjóri skipulagsstofnunar, Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar, Guðmundur Ögmundsson, þjóðgarðsvörður í Ásbyrgi, og Eyrún Jenný Bjarnadóttir, sérfræðingur hjá Rannsóknarmiðstöð ferðamála.
Ráðstefnan hófst á setningarræðu Aðalsteins Þorsteinssonar, forstjóra Byggðastofnunar og að henni lokinni ávörpuðu Jakob Björgvin Jakobsson, bæjarstjóri í Stykkishólmi og Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, ráðstefnuna. Þá flutti einnig ávarp Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, og Aldís Hafsteinsdóttir sló svo, eins og áður segir, botninn í glæsilega dagskrá ráðstefnunnar með lokaorðum sínum.