Loftslagsráð og sendiráð Bretlands á Íslandi bjóða til málfundar um loftslagsmál þriðjudaginn 10. nóvember kl. 14:30 til 16:00 í beinu streymi á netinu. Tilgangur fundarins er að hvetja til samstöðu og ábyrgðar stjórnmálamanna, atvinnulífs, sveitarfélaga, félagasamtaka og annarra þegar kemur að loftslagsmálum.
Þá er markmiðið einnig að auka umræðu og samvinnu í aðdraganda 26. loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna (COP26) sem haldin verður í Glasgow á næsta ári undir formennsku Bretlands í samstarfi við Ítalíu.
Árið 2020 markar þáttaskil þar sem aðildarríki Parísarsamningsins eiga að uppfæra loforð sín í loftslagsmálum fyrir lok ársins og standa skil á langtímastefnumótun sinni um kolefnishlutleysi. Heildarmarkmið samningsins er að takmarka hnattræna hlýnun við 1,5°C. Þetta markmið næst ekki nema hraðar verði brugðist við en gert hefur verið síðastliðna tvo áratugi.
Á málfundinum 10. nóvember verða umfjöllunarefni COP26 í forgrunni. Áhersla verður lögð á áhrif kórónuveirufaraldursins og loftslagsvæna endurreisn í kjölfar hans.
Gestir fundarins:
- Sérstakur fulltrúi breska utanríkisráðherrans í loftslagsmálum kynnir áherslur gestgjafanna vegna COP26 ráðstefnunnar í Glasgow og ræðir mikilvægi umhverfisvænnar endurreisnar í kjölfar veirufaraldursins.
- Sendiherra Bretlands á Íslandi.
- Fulltrúar Loftslagsráðs Íslands og Bretlands.
- Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, mun fjalla um þátttöku Íslands í COP26, stefnu og aðgerðir íslensku ríkisstjórnarinnar sem miða að því að byggja sjálfbært samfélag til framtíðar með áherslu á kolefnishlutleysi og skuldbindingar Íslands gagnvart Parísarsamningnum um minnkun losunar.
Brynja Þorgeirsdóttir stjórnar umræðum.
Fundurinn verður í beinu streymi á netinu. Nauðsynlegt er að skrá þátttöku og fá sendan tengil á viðburðinn þegar nær dregur. Sjá nánar á vef Loftslagsráðs