Litaflokkunarkerfi fyrir skólastarf

Frá og með næstu áramótum verður byrjað að vinna eftir nýju litaflokkunarkerfi innan skólasamfélagsins. Markmið litaflokkunarkerfisins er að auka fyrirsjáanleika og einfalda skipulag sóttvarnaráðstafana í skóla- og frístundastarfi hér á landi. Litakóðinn tekur mið af almennri litaflokkun almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, „Covid-19 Viðvörunarkerfi“ sem kynnt hefur verið.

Frá og með næstu áramótum verður byrjað að vinna eftir nýju litaflokkunarkerfi innan skólasamfélagsins. Markmið litaflokkunarkerfisins er að auka fyrirsjáanleika og einfalda skipulag sóttvarnaráðstafana í skóla- og frístundastarfi hér á landi. Litakóðinn tekur mið af almennri litaflokkun almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, „Covid-19 Viðvörunarkerfi“ sem kynnt hefur verið.

Viðvörunarkerfið snertir alla nemendur, kennara, starfsfólk og foreldra barna og ungmenna á öllum skólastigum, alls um 120 þúsund manns. Í því má finna yfirlit yfir útfærslur og áhrif sóttvarnaráðstafana á mismunandi skólastigum og hversu langan fyrirvara má gera ráð fyrir vegna breytinga á þeim.

Kerfið er hugsað til viðmiðunar og undirbúnings fyrir skólasamfélagið en það er ekki lagalega bindandi; gildandi reglugerðir heilbrigðisráðherra munu áfram stýra sóttvarnaráðstöfunum í skólum. Almennar samkomutakmarkanir gilda nema annað sé sérstaklega tekið fram. Gert er ráð fyrir því að breytingar á lit eða stigi varúðarráðstafana verði tilkynntar með reglugerðarbreytingum.

Litaflokkunin er unnin í samráði við almannavarnardeild Ríkislögreglustjóra, sóttvarnaryfirvöld og fulltrúa allra skólastiga.