Lengi býr að fyrstu gerð – eflum þekkingu ungmenna á mikilvægi vinnuverndar

Vinnueftirlitið hefur tekið þátt í að gera og gefa út samnorrænt kennsluefni um vinnuumhverfi ætlað ungmennum. Efnið er aðgengilegt á íslensku.

Markmiðið  er að ungt fólk þekki hvað einkennir góðan vinnustað þar sem stuðlað er að öryggi, góðri heilsu og vellíðan. Áhersla er lögð á gildi forvarna en því miður eru vinnuslys algengust hjá ungu fólki. 

Ungt fólk sem er að feta sín fyrstu skref á vinnumarkaði þarf að þekkja hvað einkennir góðan vinnustað þar sem stuðlað er að öryggi, góðri heilsu og vellíðan starfsfólks. Með því að gera ungmenni betur í stakk búin til að gæta að eigin öryggi og vellíðan í starfi stuðlum við að aukinni sjálfbærni á vinnumarkaði. 

Mikilvægt er að stuðla að öryggisvitund einstaklinga sem eru að feta sín fyrstu skref á vinnumarkaði. Það styður þá í að eiga þátt í góðri vinnustaðamenningu, þar á meðal öryggismenningu og er þá bæði átt við líkamlegt og sálfélagslegt öryggi. Þetta getur skipt sköpum þegar kemur að því að eiga farsæla starfsævi.

Þó atvinnurekendur beri ábyrgð á því að skapa ungmennum, sem og öðrum, öruggt og heilsusamlegt vinnuumhverfi í samræmi við lög og reglur skiptir afar miklu máli að þau hafi sjálf þekkingu á áhættuþáttum í vinnuumhverfinu sem gætu ógnað öryggi þeirra og heilsu til skemmri eða lengri tíma. 

Nánar á vef Vinnueftirlitsins.