Leiðbeiningar vegna boðaðs verkfalls Eflingar

Kjarasvið Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur sent frá sér leiðbeiningar vegna boðaðs verkfalls félagsmanna Eflingar sem starfa hjá Kópavogsbæ, Seltjarnarnesbæ, Mosfellsbæ og hjá Sveitarfélaginu Ölfusi.

Kjarasvið Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur sent frá sér leiðbeiningar vegna boðaðs verkfalls félagsmanna Eflingar sem starfa hjá Kópavogsbæ, Seltjarnarnesbæ, Mosfellsbæ og hjá Sveitarfélaginu Ölfusi. Athygli er vakin á því að þrátt fyrir boðað verkfall Eflingar í Hveragerðisbæ mun ekki verða af því þar sem enginn starfsmaður Hveragerðisbæjar á aðild að Eflingu stéttarfélagi. Ótímabundið verkfall þessara félagsmanna hefst kl. 12:00 á hádegi þriðjudaginn 5. maí 2020.

Komi til verkfalls gildir eftirfarandi

Allir starfsmenn framangreindra sveitarfélaga sem eru félagsmenn í Eflingu leggja ótímabundið niður störf.

Þeir starfsmenn sem starfa á viðkomandi vinnustað og eru ekki í verkfalli vinna sín venjubundnu störf, starfsskyldur þeirra eiga hvorki að aukast né minnka þrátt fyrir verkfall. Þar sem skörun er á störfum starfsmanna í verkfalli og annarra starfsmanna er rétt að hafa í huga, þegar starfssvið þeirra er ákveðið, að skýra það fremur þrengra en rýmra. Þannig er tryggt að starfsmenn geti færst undan störfum sínum ef þeir telja sig ganga inn á starfssvið þeirra sem í verkfalli eru.

Atriði sem sveitastjórnir þurfa að huga að vegna fyrirhugaðs verkfalls Eflingar

  • Taka saman lista yfir þá starfsmenn sveitarfélags sem verkfallið nær til.
  • Athuga mönnun á hverjum stað fyrir sig. Hve margir starfsmenn leggja niður störf í verkfalli og hve margir starfsmenn fara ekki í verkfall.
  • Ef skerða þarf þjónustuna með hvaða hætti á að gera það.
  • Tilkynna foreldrum barna, íbúum, þjónustuþegum og aðstandendum þeirra um þá skerðingu á þjónustu sem nauðsynlegar eru og kanna hvort aðstandendur geti sinnt ættingjum sínum meira ef þörf verður á. Afar líklegt er að endurskoða þurfi starfsemina reglulega meðan á verkfalli stendur og því ekki ráðlegt að taka ákvarðanir um umfang starfseminnar nema fyrir nokkra daga eða hámark viku í senn.

Forstöðumanni stofnunar ber að sjá til þess að starfsemi og þjónusta stofnunarinnar truflist sem minnst vegna verkfallsins. Stofnunin heldur starfsemi sinni áfram enda fara einungis þeir í verkfall sem það hafa löglega boðað. Forstöðumaður getur sem stjórnandi stofnunarinnar gengið sjálfur í öll störf, m.a. ræstingar, framreiðslu matar og sinnt gæslu í frímínútum svo eitthvað sé nefnt. Stofnunin getur þannig starfað áfram svo lengi sem henni hefur ekki verið lokað af heilbrigðiseftirlitinu vegna óþrifa. Forstöðumanni ber þannig að sjá til þess að stofnunin sé starfandi eftir sem áður með því starfsfólki sem ekki er í verkfalli. Þótt starfsmenn sem eru í Eflingu leggi niður störf hefur forstöðumaður eftir sem áður óskoraðan stjórnunarrétt til að skipuleggja og stýra verkum undirmanna sinna og gera aðrar stjórnunarlegar ráðstafanir vegna starfseminnar, þó í samræmi við ofangreint.

Fjarvera starfsmanna í stéttarfélaginu Eflingu vegna verkfalls getur haft í för með sér t.d. að stytta þurfi viðverutíma skólabarna í skólum. Sveitarfélag/skólastjóri þarf í slíkum tilfellum að undirbúa og tilkynna foreldrum fyrir fram hvernig draga þurfi tímabundið úr starfsemi.

Mikilvægt er að forstöðumaður sinni stjórnunarskyldu sinni og lágmarki þá truflun á starfsemi og þjónustu stofnunarinnar sem getur orðið, komi til verkfalls. Áríðandi er þó að hafa í huga að í 18. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur.

„Þegar vinnustöðvun hefur verið löglega hafin, er þeim, sem hún að einhverju leyti beinist gegn, óheimilt að stuðla að því að afstýra henni með aðstoð einstakra meðlima þeirra félaga eða sambanda, sem að vinnustöðvuninni standa“.

Forstöðumanni ber að öðru leyti að fara að þeim fyrirmælum sem sveitarfélagið setur um hvernig bregðast skuli við komi til verkfalls.

Laun

Þeir starfsmenn sem eru í verkfalli þiggja ekki laun meðan á því stendur, laun í veikindaleyfum, námsleyfum og önnur leyfi á launum falla niður meðan verkfall varir. Hið sama á við um laun starfsfólks í orlofi, það fær ekki laun í verkfalli. Vegna greiðslu launa til félagsmanna í verkfalli er nauðsynlegt að hafa eftirfarandi í huga:

Frádráttur launa vegna vinnustöðvunar

  • Ekki eru greidd laun í verkfalli.
  • Veikindalaun falla niður meðan á verkfalli stendur, skiptir ekki máli hvort veikindi hófust fyrir eða eftir að verkfall hófst.
  • Starfsmenn ávinna sér ekki veikindarétt meðan á verkfalli stendur.
  • Laun í námsleyfum og öðrum leyfum falla niður.
  • Laun til þeirra sem eru í orlofi falla niður.
  • Starfsmenn vinna sér ekki inn rétt til orlofs og orlofslauna meðan á verkfalli stendur.