Leiðbeiningar til flóttafólks frá Úkraínu um skólagöngu barna

Mennta- og barnamálaráðuneytið hefur gefið út leiðbeiningar til forsjáraðila barna og ungmenna frá Úkraínu um hvernig hefja skuli skólagöngu þeirra hérlendis.

Leiðbeiningarnar eru á úkraínsku og ensku og er að finna á upplýsingasíðu stjórnvalda fyrir flóttafólk frá Úkraínu á Island.is. Þær má einnig nálgast á íslensku á vef ráðuneytisins. Þær ná til leik-, grunn- og framhaldsskóla.

Einnig er búið að gefa út upplýsingablöð á úkraínsku og á ensku um 11 framhaldsskóla sem sett hafa upp sérstaka móttökuáætlun fyrir ungmenni á aldrinum 16-20 ára á flótta frá Úkraínu, í samstarfi við mennta- og barnamálaráðuneytið.

Framhaldsskólarnir eru staðsettir víðs vegar um landið og fylgja upplýsingar um þá og staðsetningu þeirra á korti með í leiðbeiningunum, ásamt tengiliðum sem hægt er að hafa samband við. Skólarnir veita einnig aðstoð við að koma ungmennum í aðra framhaldsskóla, eftir aðstæðum.

Mennta- og barnamálaráðuneytið hefur átt gott samstarf við sveitarfélög um móttöku leik- og grunnskólabarna á flótta frá Úkraínu og vinnur nú að útfærslu á tímabundnum stuðningi stjórnvalda við sveitarfélög vegna mennta-, íþrótta- og tómstundaúrræða í vor og sumar.