Kynningarfundur kjaratölfræðinefndar

Fyrsta skýrsla kjaratölfræðinefndar, samráðs- og samstarfsvettvangs um gerð og hagnýtingu tölfræðigagna um laun og efnahag, var kynnt í húsnæði ríkissáttasemjara í vikunni.

Fundi kjaratölfræðinefndar var streymt, en hann sat auk nefndarmanna, forystufólk þeirra sem aðild eiga að nefndinni; ASÍ, BHM, BSRB, KÍ, SA, Sambands íslenskra sveitarfélaga og samninganefndar ríkisins. Fundi stýrði Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari.

Upptaka frá fundinum.

Félags- og barnamálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason, ávarpaði fundargesti og fagnaði útkomu skýrslunnar. Hann sagði samkomulag það sem gert var í fyrravor um stofnun kjaratölfræðinefndar hafi verið ein af margvíslegum aðgerðum ríkistjórnarinnar til að liðka fyrir kjarasamningum. Hann sagðist sannfærður um að þessi fyrsta skýrsla og áframhaldandi vinna nefndarinnar nýtist vel og benti á mikilvægi þess að aðilar beggja vegna borð væru sammála um ákveðinn grunn þegar komið væri að samningaborðinu.

Edda Rós Karlsdóttir, formaður kjaratölfræðinefndar, kynnti skýrsluna og helstu atriði hennar. Hún sagði skýrsluna unna við afar óvenjulegar aðstæður þar sem hraðar og miklar breytingar væru að verða á högum launafólks vegna þess faraldurs sem nú gengur yfir. Hún lagði áherslu á að í skýrslunni væru upplýsingar sem nefndin teldi áreiðanlegar og væri sammála um. „Þessi skýrsla er hugsuð sem verkfæri“, sagði Edda Rós, „þetta er ekki stóri dómur. Við vonum að aðilar vinnumarkaðarins geti nýtt þessar upplýsingar til að meta stöðu sinna félagsmanna.“ Þá sagði hún að nefndin hefði safnað saman ýmsum gögnum um samningana sem hafa ekki áður birst á einum stað og sagði þær til þess fallnar að hjálpa fólki að skilja betur og bera saman launabreytingar einstakra hópa. Hækkanir mælist mestar hjá þeim sem hafa lægstu launin og þannig hafi krónutöluaukningin komið út eins og til var ætlast. Þá drap Edda Rós á þróun efnahagsmála, ræddi yfirstandandi kreppu og bar saman við síðustu tvær. Loks sagði hún nefndina taka undir áður fram komnar tillögur um að hafin verði heildartalning launaupplýsinga frá launagreiðendum og að nefndin leggi til að komið verði á skipulagðri söfnun upplýsinga um alla kjarasamninga.

Að lokinni kynningu Eddu Rósar tók forystufólk þeirra sem aðild eiga að nefndinni til máls , þau Drífa Snædal, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Sonja Ýr Þorbergsdóttir, Ragnar Þór Pétursson, Eyjólfur Árni Rafnsson Aldís Hafsteinsdóttir og Pétur Jónasson. Mikill samhljómur var með þeim og lýstu þau ánægju sinni með útkomu skýrslunnar og starf nefndarinnar. Þá voru þau sammála um að skýrslan og starf nefndarinnar muni stytta mjög leið í samningaviðræðum með því að tryggja að samningsaðilar hafi góð gögn að byggja á. Hér væri um að ræða fyrsta skrefið af mörgum í átt að betri vinnubrögðum á vinnumarkaði.  

Í lok fundar tók Edda Rós aftur til máls, ræddi stuttlega hverju nefndin vill bæta við og úr í komandi skýrslum og hvatti til þess að fólk sendi fyrirspurnir og ábendingar til nefndarinnar í gegnum netfangið ktn@ktn.is

Hér að neðan má sjá myndir frá fundinum.