Fram að þessu hefur mest verið fjallað um áhrif COVID-19 faraldursins á heilsu fólks og efnahagslegar afleiðingar þeirra aðgerða sem gripið hefur verið til í því skini að hefta útbreiðslu veirunnar og bjarga mannslífum. Það er hins vegar ljóst að faraldurinn hefur margvísleg áhrif á samfélag okkar og eitt af því sem vert er að skoða eru áhrif hans á kynjajafnrétti.
Fram að þessu hefur mest verið fjallað um áhrif COVID-19 faraldursins á heilsu fólks og efnahagslegar afleiðingar þeirra aðgerða sem gripið hefur verið til í því skyni að hefta útbreiðslu veirunnar og bjarga mannslífum. Það er hins vegar ljóst að faraldurinn hefur margvísleg áhrif á samfélag okkar og eitt af því sem vert er að skoða eru áhrif hans á kynjajafnrétti.
Á fjarfundi Samtaka evrópskra sveitarfélaga, sem fór fram í vikunni, var fjallað um áhrif COVID-19 faraldursins á kynjajafnrétti í Evrópu. Þar kom fram að aðstæður í Evrópu eru um margt svipaðar og að konur í Evrópu sinna að stærstum hluta störfum sem skilgreinast þessa dagana sem nauðsynleg grunnþjónusta. Þar má meðal annars nefna spítala, heilsugæslu, umönnun aldraðra, skóla og leikskóla. Þá er víða í Evrópu einungis heimilt að hafa matvöru- og lyfjaverslanir opnar og þeim störfum er að stærstum hluta sinnt af konum. Afleiðingar þessa eru margvíslegar og hér verða þær helstu reifaðar.
Aukin smithætta
Þeir sem sinna störfum sem eru skilgreind sem nauðsynleg grunnþjónusta á tímum faraldurs á borð við COVID-19 veiruna eru í mun meiri hættu en aðrir að smitast af veirunni.
Konur eru því sá hópur innan samfélags okkar sem er í mestri smithættu eins og staðan er í dag. Þá eru þessi störf í sumum tilvikum láglaunastörf og áhætta og umbun því oft í öfugu hlutfalli við það sem venjulega myndi teljast eðlilegt.
Lítil sveigjanleiki
Þessi störf eru jafnframt þess eðlis að þeim verður tæplega sinnt með fjarvinnu heldur krefjast þau viðveru starfsmanna. Störfin eru fyrir bragðið ekki eins sveigjanleg og mörg önnur störf. Þar af leiðandi er erfitt fyrir fólk í þessu störfum að bregðast við lokunum skóla, leikskóla, sinna öldruðum fjölskyldumeðlimum, o.s.frv.
Hrökklast úr starfi
Staða kvenna í Evrópu er í mörgum tilfellum með þeim hætti að í ástandi sem þessu er mikil hætta á að konur hrökklist úr starfi. Lokanir skóla og leikskóla hefur oftast þær afleiðingar að umönnun barna kemur í hlut kvenna. Þar sem aldraðir eru sérstaklega viðkvæmur hópur á tímum COVID-19 veirunnar þá hafa ömmur og afar ekki tök á að hlaupa undir bagga með barnafjölskyldum eins og almennt tíðkast í mörgum löndum. Þetta eykur enn frekar þann vanda sem konur standa frammi fyrir um þessar mundir.
Þessu til viðbótar fellur það gjarnan á herðar konum að sinna öðrum fjölskyldumeðlimum, hvort sem um er að ræða þá sem eiga við veikindi að stríða eða aldraða meðlimi fjölskyldunnar. Þetta veldur auknu álagi á konur og hefur jafnvel leitt til þess að konur hafi neyðst til þess að taka frí frá vinnu eða hreinlega hrökklast úr starfi.
Þessir þættir hafa í flestum tilvikum í för með sér tekjumissi fyrir konur og þar með hættu á að þær nái ekki endum saman. Samkvæmt gögnum frá Evrópustofnun um jafnrétti kynjanna þá eru 25% kvenna innan ESB í störfum þar sem hætta er á að þær verði fátækt að bráð. Núverandi ástand mun að öllum líkindum auka enn frekar þá hættu.
Jöfn tækifæri
Ríki Evrópu boða um þessar mundir til margvíslegra efnahagsaðgerða sem ætlað er að bregðast við afleiðingum þeirra hafta sem grípa hefur þurft til vegna COVID-19 faraldursins. Talsverðar áhyggjur eru af því að aðgerðirnar gagnist konum ekki eins vel og vonir stóðu til. Það á t.d. eftir að koma í ljós hvort væntanlegur niðurskurður í fjárlögum ríkja Evrópu eigi eftir að bitna meira á konum en körlum. Konur eru fjölmennar innan opinbera geirans og fækkun starfa þar mun því að öllum líkindum hafi mikil áhrif á starföryggi kvenna. Í þessu tilliti má einnig nefna einkageirann og þá staðreynd að á Íslandi hafa fjölmörg störf í tengslum við ferðaþjónustu horfið nánast á einni nóttu. Hvaða áhrif það á eftir að hafa á atvinnuöryggi kvenna er ekki vitað, en nýlegar uppsagnir t.d. hjá Icelandair sýna að fjöldi kvenna mun líklega missa störf sín á næstu vikum og mánuðum.
Þá hafa verið uppi gagnrýnisraddir vegna þeirra efnahagsaðgerða sem ríki hafa boðað og að þær skapi einkum dæmigerð „karlastörf“. Eins eru áhyggjur af því að kvenkyns frumkvöðlar og konur í atvinnustarfsemi muni ekki eiga eins greiðan aðgang að lánsfé og karlar í sömu stöðu.
Í þessu samhengi er vert að benda á að Samband íslenskra sveitarfélaga hefur beint því til sveitarfélaga að hrinda í framkvæmd, eins og kostur er, aðgerðum til viðspyrnu fyrir íslenskt atvinnulíf í ljósi þess samdráttar sem blasir við í þjóðarbúskapnum. Í þeim tillögum er sérstaklega tekið fram að þau störf sem skapast í aðgerðum sveitarfélaga henti einnig konum.
Hvað segir sagan okkur?
Samkvæmt gögnum frá Alþjóðabankanum lagast efnahagsleg staða kvenna mun hægar en karla í kjölfar efnahagshruns. Því er hætta á að efnahagsleg staða kvenna versni til muna í kjölfar COVID-19 kreppunnar og að slíkt ástand geti varað lengi ef stjórnvöld, á öllum stigum, grípa ekki til markvissra aðgerða til að fyrirbyggja slíka þróun. Sú staðreynd að konur sinna oft á tíðum opinberum störfum kallar einnig á að stjórnvöld verndi þessi störf eins og unnt er.
Heimilisofbeldi
Ríki Evrópu eiga það öll sameiginlegt að heimilisofbeldi hefur aukist við þær aðstæður sem COVID-19 faraldurinn hefur skapað. Í sumum ríkjum Evrópu hefur aukningin verið gríðarleg, hátt í 30%. Í flestum löndum Evrópu hefur aukningin verið umtalsverð og sem dæmi má nefna að á Íslandi er aukningin 10%, samkvæmt nýjum tölum ríkislögreglustjóra.
Heimilisofbeldi er alvarlegt mein í samfélagi okkar og því grafalvarlegt að krísa á borð við COVID-19 faraldurinn auki enn frekar þann vanda. Það var samdóma álit þátttakenda á fundinum að ekki sé hægt að una við þá slæmu stöðu sem COVID-19 faraldurinn skapar. Því sé nauðsynlegt að finna leiðir til þess að koma í veg fyrir aukið heimilisofbeldi þegar neyðarástand eins og COVID-19 faraldur herjar á samfélag okkar. Sveitastjórnir gegna lykilhlutverki hvað þetta varðar og því má ætla að heimilsofbeldi á tímum neyðarástands verði ofarleg á borði samtaka sveitarfélaga í Evrópu næstu misserin.
Aðrir þætti sem hafa áhrif á stöðu kvenna
Samkvæmt könnun frá Kynjajafnrétti í borgum (Gender Equal Cities) þá treysta konur mun meira en karlar á almenningssamgöngur til að koma sér til og frá vinnu, að kaupa í matinn og vegna heilbrigðisþjónustu. Í því ástandi sem nú ríkir eykur þetta til munu áhættu kvenna við að smitast af COVID-19. Auk þess eru almenningssamgöngur í flestum ríkjum Evrópu verulega takmarkaðar um þessar mundir sem hefur áhrif á möguleika kvenna að sækja vinnu og sinna daglegum athöfnum.
Í einhverjum tilvikum hefur álag á heilbrigðiskerfi ríkja Evrópu orðið til þess að aðgangur að fæðingar- og mæðraeftirliti er minni en undir venjulegum kringumstæðum. Þetta hefur valdið þeim sem ganga með barn eða eru með ung börn auknu álagi og áhyggjum.
Þá var einnig minnst á að í núverandi ástandi eru margir viðkvæmir hópar í enn alvarlegri stöðu en áður. Þar má t.d. nefna þá sem búa í flóttamannabúðum eða dvelja ólöglega í ríkjum Evrópu. Aðgangur þeirra að heilsugæslu er í mörgum tilvikum verulega takmarkaður, auk þess sem tungumálaörðuleikar og skortur á formlegri stöðu veldur því að þessir hópar eru í enn erfiðari stöðu en áður.
Hvað er til ráða?
Þetta er stór spurning og það er vissulega hætta á að COVID-19 faraldurinn hafi í för með sér bakslag þegar kemur að kynjajafnrétti í Evrópu.
Því þarf að huga vel að kynjajafnrétti þegar ríki Evrópu boða aðgerðir sem er ætlað að rétta við samfélög og hagkerfi Evrópu. Þetta undirstrikar enn á ný mikilvægi þess að kynjajafnrétti sé virkt þegar kemur að þátttöku kvenna í stjórnmálum, atvinnulífi, stjórn fyrirtækja, o.s.frv. Það er því vert að rifja upp að í dag eru t.d. einungis 15% af borgarstjórum Evrópu konur. Það er því veruleg hætta á að sjónarmiðum kvenna sé ekki haldið nægjanlega á lofti þegar kemur að því að ákveða hvernig best sé að bregðast við afleiðingum COVID-19 faraldursins.
Íslenska þríeykið hefur ítrekað bent okkur á að við séum öll í þessu saman. Það á einnig við um að finna farsælar lausnir á þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir. Kynin ættu því að koma jafnt að þeirri vinnu. COVID-19 faraldurinn hefur kennt okkur að við getum lagað okkur hratt að breyttum aðstæðum og gengið í takt öll sem eitt þegar á reynir. Það er því freistandi að vona að hið sama geti átt við þegar kemur að kynjajafnrétti og að núverandi ástand leiði ekki til bakslags heldur þvert á móti verði til þess að við náum hraðar en ella að jafna stöðu kynjanna. Við erum jú öll í þessu saman.