Krefst viðhorfsbreytingar í íþrótta- og æskulýðsstarfi

Mikilvægt er að stjórnvöld knýi fram viðhorfsbreytingu gagnvart kynferðislegri áreitni og ofbeldishegðun í öllu íþrótta- og æskulýðsstarfi, að mati starfshóps sem mennta- og menningarmálaráðherra skipaði í kjöfar #metoo aðgerða íþróttakvenna. Ofbeldishegðun er ólíðandi í öllu íþrótta- og æskulýðsstarfi og forgangsmál er að öryggi iðkenda og annarra þátttakenda sé hafið yfir vafa. Mennta- og menningarmálaráðuneytið leitar samstarfi við sveitarfélög um framkvæmd á tillögum starfshópsins.

Adgerdir-gegn-kynferdislegri-areitni-og-ofbeldishegdun-i-ithrotta-og-aeskulydsstarfiMikilvægt er að stjórnvöld knýi fram viðhorfsbreytingu í íþrótta- og æskulýðsstarfi gagnvart kynferðislegri áreitni og ofbeldishegðun, að mati starfshóps sem mennta- og menningarmálaráðherra skipaði í vor sem leið.  Ofbeldishegðun sé ólíðandi og forgangsmál að öryggi iðkenda og annarra þátttakenda sé hafið yfir vafa.

Starfshópurinn skilaði nýlega tillögum til mennta- og menningarmálaráðherra, sem snerta ýmsa aðila innan íþrótta- og æskulýðsstarfs, s.s. íþróttahreyfinguna, æskulýðsfélög, sveitarfélög og önnur stjórnvöld.

Aðdragandi málsins er sá, að í kjölfarið á  #metoo yfirlýsingu íþróttakvenna í upphafi þessa árs, skipaði mennta- og menningarmálaráðherra starfshóp sem falið var að leggja aðgerðir til við ráðherra.

Árangur er að mati starfshópsins háður því, að allir hlutaðeigandi aðilar taki samstillt höndum saman og kveði í eitt skipti fyrir öll ofbeldisógnina niður. Ráðuneytið leitar því eftir sem víðtækustu samstarfi um að tillögum hópsins verði hrundið í framkvæmd á öllum sviðum íþrótta- og æskulýðsstarfs.

Nálgast má skýrsluna og bréf ráðherra á hlekkjum hér að neðan. Eftirtalin atriði eru á meðal þess sem starfshópurinn leggur til:

  • Að skýrir og samhæfðir verkferlar og viðbragðsáætlanir séu til staðar hjá félögum og samtökum í íþrótta- og æskulýðsstarfi.
  • Að fræðsluefni um kynferðislegt ofbeldi og óæskilega hegðun sé samræmt og að allir sem bera ábyrgð á íþrótta- og æskulýðsstarfi hafi grunnþekkingu á því hvernig bregðast eigi við þegar upp koma mál sem tengjast áreitni eða ofbeldi.
  • Að unnið sé markvisst í jafnréttismálum á vegum íþróttahreyfingarinnar. Aukið jafnrétti getur haft jákvæð áhrif á ýmsa þætti í íþróttastarfi og þar með dregið úr áreitni og ofbeldishegðun.
  • Hópurinn telur mikilvægt að til staðar sé óháður aðili sem getur tekið við símtölum, tilkynningum eða öðrum samskiptum um ofbeldi og aðra óæskilega hegðun og komið þeim í réttan farveg. Slíkur ráðgjafi gæti einnig leiðbeint við gerð siðareglna og viðbragðsáætlana og sinnt upplýsingagjöf og fræðslu um málaflokkinn.
  • Mikilvægt er að íþróttahreyfingin setji sér siðareglur og hegðunarviðmið, kanni bakgrunn þeirra sem koma að íþróttastarfi og kynni fyrir þeim þær reglur sem gilda í starfinu. Sé vafi til staðar vegna einstaklings sem fyrirhugað er að ráða eða fá til starfa sem sjálfboðaliða er mikilvægt að horfa fyrst og fremst til hagsmuna iðkenda.
  • Að ríki og sveitarfélög sem styðja íþrótta- og æskulýðsstarf með aðstöðu og fjárframlögum setji skilyrði í alla samninga við íþrótta- og æskulýðshreyfinguna um að félögin séu með viðbragðsáætlun á þessu sviði og stuðli þannig að aukinni þekkingu, meðvitund og réttum viðbrögðum þegar áreitni eða ofbeldismál koma upp.
  • Að setja ákvæði í íþróttalög sem koma í veg fyrir að starfsfólk verði ráðið sem dæmt hefur verið fyrir ofbeldisbrot, kynferðisbrot. Mikilvægt er að einfalda verkferla fyrir íþrótta- og æskulýðshreyfinguna til þess að afla slíkra upplýsinga frá opinberum aðilum.

Sjá nánar skýrslu starfshópsins og bréf ráðherra til hlutaðeigandi aðila:

Aðgerðir gegn kynferðislegri áreitni og ofbeldishegðun í íþrótta- og æskulýðsstarfi - skýrsla starfshóps MRN

Bréf mennta- og menningarmálaráðherra til hlutaðeigandi aðila