Kostnaðarþátttaka Úrvinnslusjóðs fyrir sérstaka söfnun á vörum og umbúðum fyrir árið 2023 

Í júní 2023 greiddi Úrvinnslusjóður í fyrsta skipti sveitarfélögum fyrir sérstaka söfnun á vörum og umbúðum sem eru á ábyrgð sjóðsins, en árið 2021 tóku ný lög gildi þar sem gerðar voru umtalsverðar breytingar á úrgangsstjórnun sveitarfélaga og kröfur hertar.  Greitt er fyrir að koma á söfnun við heimili og á grenndar- og söfnunarstöðvum.

Samkvæmt upplýsingum Úrvinnslusjóðs hafa öll sveitarfélög fengið einhverjar greiðslur úr sjóðnum vegna sérstakrar söfnunar og nema greiðslurnar fyrir árið 2023 í heild 738 m.kr.  

Alls hafa 60 sveitarfélög fengið greiðslur vegna sérstakrar söfnunar við heimili, 30 vegna söfnunar á grenndarstöðvum og 51 vegna söfnunar á söfnunarstöðvum. Ef miðað er við íbúafjölda þá eru lægstu greiðslurnar 393 kr. á íbúa og hæstu 14.472 kr. á íbúa. Erfitt er að draga nákvæmar ályktanir af því í hverju þessi munur liggur en samkvæmt skýringum sjóðsins þá getur þessi munur stafað af því að ekki eru öll sveitarfélög með grenndarstöðvar og/eða söfnunarstöðvar auk þess sem einhver sveitarfélög eru með samsöfnun á plasti og pappírsefnum sem greitt er minna fyrir.  

Einnig getur skýringin verið að mjög misjafnar heimtur eru á gögnum frá verktökum sem greiðslur sjóðsins  til sveitarfélaga byggja á. Stjórn sjóðsins tók þá ákvörðun að  byggja kostnaðarþátttöku sína til sveitarfélaga á upplýsingum frá verktökum sveitarfélaga sem sinna úrgangsþjónustu . Til að mynda hafa gögn fyrir 58 sveitarfélög af 64 fyrir fjórða ársfjórðung 2023 borist sjóðnum. Að mati sjóðsins getur skýringin að lokum falist í mismunandi magni sem safnast á hvern íbúa og á það t.d. við í þau sveitarfélög sem ferðamannafjöldi og sumarbústaðarbyggð er mikil. 

Kostnaðarþátttaka minni en áætlað var 

Úrgangur sem inniheldur vörur sem búið er að greiða úrvinnslugjald af ætti að vera hægt að skila gjaldfrjálst til meðhöndlunar en það er því miður ekki staðreyndin. Því miður virðast þær væntingar sem koma fram í kostnaðarmati laganna frá 2021 ekki ætla að ganga eftir. Í matinu er gert ráð fyrir því að úrvinnslugjald muni dekka aukinn kostnað sveitarfélaga við bæði sérstaka söfnun og aðra meðhöndlun úrgangsflokka sem í eru vörur og umbúðir sem bera úrvinnslugjald, svo sem pappírs og pappa og plasts. Einungis var gert ráð fyrir kostnaðaraukningu sveitarfélaga vegna lífúrgangs.  

Það er einnig áhyggjuefni að Úrvinnslusjóður byggir kostnaðarþátttöku sína á gögnum frá verktökum sem sveitarfélög hafa samið við og að þau gögn hafi ekki í öllum tilfellum borist sjóðnum. Eðlilegra væri að sjóðurinn myndi byggja kostnaðarþátttöku sína á raunkostnaði sveitarfélaga og gögnum frá þeim sjálfum.  

Þetta er ekki ný staða því kostnaðarþátttaka Úrvinnslusjóðs í kostnaði sveitarfélaga vegna meðhöndlunar úrgangs sem sjóðurinn ber ábyrgð á hefur verið afar lítil hingað til. Úrvinnslusjóður hefur greitt fyrir flutning á úrgangi og ráðstöfun úrgangs til ,,skráðra þjónustuaðila Úrvinnslusjóðs“. Þessu verklagi er ekki lýst í lögum um úrvinnslugjald sem Úrvinnslusjóður starfar eftir en þessir aðilar eru oftast verktakar sem sveitarfélögin semja við í gegnum útboð. Því er haldið fram að greiðslur Úrvinnslusjóðs eigi að skila sér í gegnum þau verð sem verktakar bjóða. Slík kostnaðarþátttaka er í besta falli mjög óljós. 

Í nýlegri samantekt sjóðsins kemur fram að á árunum 2019 til 2022 greiddi sjóðurinn 7,8 milljarða fyrir flutning og ráðstöfun vara og umbúða sem bera úrvinnslugjald. Greiðslur til sveitarfélaga voru einungis um 487 m.kr. af þeirri upphæð eða um 122 m.kr á ári.

Minnisblað sambandsins um kostnaðarþátttöku Úrvinnslusjóðs.