Kínversku vináttusamtökin sóttu nýlega heim Samband íslenskra sveitarfélaga. Samtökin hafa það hlutverk, að efla vináttutengsl við önnur lönd, s.s. með vinbæjatengslum. Á fundinum kom fram að samtökin hafa með stuðningi kínverskra stjórnvalda, átt góðu gengi að fagna og eiga þau nú um 500 vináttufélög og 2500 vináttutengsl um heim allan.
Kínversku vináttusamtökin sóttu nýlega heim Samband íslenskra sveitarfélaga. Samtökin hafa það hlutverk, með stuðningi kínverskra stjórnvalda, að efla vináttutengsl við önnur lönd, s.s. með vinabæjartengslum. Hafa þau átt góðu gengi að fagna og eiga nú um 500 vináttufélög og 2500 vináttutengsl um heim allan.
Nokkur íslensk sveitarfélög hafa í gegnum árin myndað tengsl við kínversk sveitarfélög, sem hafa myndast í kringum ákveðna atburði eða tengjast tilteknum aðilum eða stofnunum, þó að samskiptin hafi ekki verið mikil.
Halldór Halldórsson, formaður og Karl Björnsson framkvæmdastjóri sambandsins, tóku sl. þriðjudag á móti sendiherra Kína á Íslandi, Jin Zhijian, og aðstoðarmanni hans Liu Wei í húsakynnum sambandsins. Tilefnið var að sendiherrann langaði að fylgja eftir óskum Kínversku vináttusamtakanna um að sveitarfélög, bæir, borgir og félagasamtök í Kína myndi vinnuáttutengsl við sveitarfélög á Íslandi eða aðila innan þeirra.
Um samskipti af ýmsu tagi gæti verið að ræða, s.s. á sviði menningar, menntunar, nýsköpunar eða viðskipta. Einnig greindi sendiherrann frá því að hann hygðist á næstunni, leita eftir beinum samskiptum og heimsóknum til einhverra sveitarfélaga hér á landi til að ræða hugsanlega tengslamyndun.
Svo vildi til að á sama tíma og fundað var með sendiherranum og aðstoðarmanni hans, fór einnig fram í húsakynnum sambandsins fundur framkvæmdastjóra landshlutasamtaka. Var það tækifæri gripið og gat sendiherrann sagt framkvæmdastjórunum frá áhuga kínverskra stjórnvalda á auknum samstarfstengslum. Hvatti hann þá jafnframt til að setja sig í samband við sendiráðið ef áhugi kynni að vakna á nánari samskiptum við aðila í Kína.
Það vakti sérstaka athygli fulltrúa sambandsins og landshlutasamtakanna á þessum fundum, að báðir kínversku fulltrúarnir töluðu góða íslensku. Ástæða þess að Jin Zhijian, sendiherra, er svona vel talandi á íslenska tungu er, að hann stundaði nám við Háskóla Íslands fyrir um 30 árum. Í kjölfar þess fór hann til starfa fyrir kínversk stjórnvöld víða um heim, en er nú aftur kominn til Íslands.
Þess má svo geta, að nk. mánudag, þann 28. maí býður borgarstjórn Senzhen héraðsins í Kína og China Hi-Tech Fair til hátækni- og nýsköpunarþings og tengslamyndunar í samstarfi við utanríkisráðuneytið og Íslandsstofu. Þingið fer fram á Hilton Reykjavík Nordica kl. 09:00-12:00 og eru á dagskrá erindi frá bæði íslenskum og kínverskum fyrirtækjum og frumkvöðlum sem hafa viðskiptareynslu í Kína. Að þinginu loknu gefst svo tækifæri til frekari tengslamyndunar yfir hádegisverði kl. 12:00-14:00.
Kínverski sendiherrann ásamt aðstoðarmanni sínum og formaður og framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga á fundi aðilanna í húskynnum sambandsins nú nýlega.