Karl Björnsson sæmdur heiðursmerki Sambands íslenskra sveitarfélaga

Landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga sæmdi í dag Karl Björnsson framkvæmdastjóra heiðursmerki sambandsins.

Karl með heiðursmerki Sambands íslenskra sveitarfélaga. Ljósm.: Haraldur Guðjónsson Thors

Karl hefur starfað hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga frá árinu 2002 en sem framkvæmdastjóri frá 2008. Nær allan sinn starfsferil hefur hann starfað á sveitarstjórnarstiginu en hann varð bæjarstjóri á Selfossi árið 1986, aðeins 29 ára gamall.

Í ársskýrslu Sambands íslenskra sveitarfélaga fyrir árið 2022 segir Karl m.a. í formála:

Í lok apríl 2023 mun ég  láta af starfi framkvæmdastjóra sambandsins. Starfi sem ég hef sinnt frá árinu 2008, en áður var ég sviðsstjóri kjarasviðs sambandsins frá árinu 2002. Það eru vissulega tímamót að hverfa af vettvangi sveitarstjórna þar sem ég hef lifað og hrærst í nánast allan minn starfsferil eða frá árinu 1986 þegar ég hóf starf sem bæjarstjóri á Selfossi. Ég lít til baka stoltur og þakklátur fyrir öll þau verkefni sem hef fengið að fást við  og ber hlýhug til þess  fjölda fólks sem ég hef kynnst og starfað með á þessum vettvangi.

Ég óska samstarfsfélögum mínum og öllu sveitarstjórnarfólki allra heilla í leik og starfi. Gangi ykkur vel í ykkar mikilvægu störfum.

Við afhendingu heiðursmerkisins sagði Heiða Björg Hilmisdóttir formaður m.a. að það væri mikill sjónarsviptir af honum á vettvangi sveitarstjórnarmála.

En Kalli hefur allan sinn starfsferil lifað og hrærst í sveitarstjórnarmálum. Vil ég þakka honum persónulega fyrir samstarfið og einnig vil ég þakka honum fyrir ötullega baráttu fyrir hagsmunum sveitarfélaga undanfarna áratugi.

Karl tekur við heiðursmerkinu frá Heiðu Björgu Hilmisdóttur formanni.