Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands og Lilja Alfreðsdóttir hafa í samvinnu við aðila menntakerfisins og ráðuneyti sveitarstjórnarmála bundist samtökum um að veita Íslensku menntaverðlaunin.
Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands og Lilja Alfreðsdóttir hafa í samvinnu við aðila menntakerfisins og ráðuneyti sveitarstjórnarmála bundist samtökum um að veita Íslensku menntaverðlaunin. Verðlaunin voru veitt í tíð fyrri forseta frá árinu 2005 en hefur nú verið komið í ákveðinn farveg með samkomulagi milli þeirra sem að þeim standa.
Markmið verðlaunanna er að vekja athygli samfélagsins á metnaðarfullu og vönduðu skóla- og frístundastarfi og auka veg menntaumbótastarfs. Verðlaunin verða veitt í þremur flokkum. Ein verðlaun verða veitt skóla eða annarri menntastofnun fyrir framúrskarandi starf. Í annan stað verða kennara sem stuðlað hefur að framúrskarandi menntaumbótum veitt verðlaun. Þriðju verðlaunin verða veitt þróunarverkefni á sviði menntunar sem stenst ítrustu gæðakröfur. Að auki verður veitt hvatning til einstaklings, hóps eða samtaka sem lagt hafa af mörkum við að stuðla að menntaumbótum sem þykja skara fram úr.
Gerður Kristný skipuð formaður viðurkenningarráðs
Forseti hefur skipað Gerði Kristnýju Guðjónsdóttur, skáld og rithöfund, formann viðurkenningarráðs, sem mun halda utan um framkvæmd verðlaunaveitinganna.
Samstarfsaðilar munu undirrita samkomulag um verðlaunin á Bessastöðum þann 5. nóvember nk. Auk embættis forseta Íslands, mennta- og menningarmálaráðuneytis og samgöngu- og sveitar-stjórnarráðuneytis, koma að verkefninu Félag um menntarannsóknir, Grunnur – félag fræðslustjóra og stjórnenda skólaskrifstofa, Kennaradeild Háskólans á Akureyri, Kennarasamband Íslands, Menntamálastofnun, Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök áhugafólks um skólaþróun og Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar.