Með lögum nr. 83/2022, sem Alþingi samþykkti í sumar, var mælt fyrir um breytingar á ákvæðum sveitarstjórnarlaga sem fjalla um íbúakosningar sem fram fara á vegum sveitarfélaga.
Markmið laganna var að bæta úr annmörkum á gildandi löggjöf og skýra m.a. betur gildissvið sveitarstjórnarlaga annars vegar og kosningalaga hins vegar varðandi undirbúning og framkvæmd atkvæðagreiðslna um málefni á sveitarstjórnarstigi. Er nú mælt fyrir um í sveitarstjórnarlögum að íbúakosningar sveitarfélaga fari fram á grundvelli reglna sem sveitarfélög setja sér sjálf, en ráðuneyti sveitarstjórnarmála skal setja reglugerð þar sem mælt er fyrir um þær lágmarkskröfur sem gera þarf til íbúakosninga sveitarfélaga.
Vinna hefur staðið yfir í haust um gerð reglugerðar um íbúakosningar og hefur vinnan farið fram í miklu samráði við landskjörstjórn og dómsmálaráðuneytið, auk þess sem Samband íslenskra sveitarfélaga, Þjóðskrá Íslands og Reykjavíkurborg hafa yfirfarið drög af reglugerðinni.
Umsagnarfrestur er til 28. nóvember og eru sveitarstjórnir hvattar til að kynna sér málið og senda umsagnir í samráðsgátt.