Innleiðing aðgerðaáætlunar um geðrækt, forvarnir og stuðning við börn og ungmenni

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, mun í haust hefja undirbúning að innleiðingu aðgerðaáætlunar um geðrækt, forvarnir og stuðning við börn og ungmenni í leik-, grunn- og framhaldsskólum.

Sú vinna er hluti af aðgerðum við menntastefnu til 2030 og innleiðingu nýrra laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna og mun grundvallast á tillögum starfshóps um geðrækt í skólum sem samþykktar voru af ríkisstjórn 2020.

Til þess að leiða þessa vinnu hefur ráðuneytið fengið til liðs við sig Sigrúnu Daníelsdóttur sem stýrði áður vinnu starfshópsins. Sigrún er sálfræðingur að mennt og sérfræðingur í klínískri barnasálfræði. Síðastliðinn áratug hefur hún gegnt stöðu verkefnastjóra geðræktar hjá embætti landlæknis þar sem hún hefur leitt margvísleg verkefni á sviði stefnumótunar, svo sem vinnuhóp um geðrækt og forvarnir fyrir geðheilbrigðisstefnu og aðgerðaáætlun stjórnvalda til ársins 2020, aðgerðaáætlun til að fækka sjálfsvígum á Íslandi og áætlun um innleiðingu geðræktar, forvarna og stuðnings við börn og ungmenni í skólum. Hún hefur einnig leitt geðræktarþátt Heilsueflandi leik-, grunn- og framhaldsskóla og Heilsueflandi samfélags hjá Embætti landlæknis.

Sigrún mun fara fyrir teymi innan ráðuneytisins sem verður falið að gera nánari áætlun um innleiðingu þrepaskipts stuðnings í íslensku skólakerfi með áherslu á geðrækt, forvarnir og snemmtæk úrræði vegna vegna náms-, hegðunar-, félags- og tilfinningalegra erfiðleika. Þessi vinna er undirstöðuþáttur við innleiðingu nýrra laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna enda er skólaumhverfið, næst á eftir heimilum barna, mikilvægasta umhverfi þeirra.

Frétt af stjornarradid.is