Hvernig er að vera af erlendum uppruna á Íslandi?

Úthlutun úr þróunarsjóði innflytjendamála fór nýlega fram og hlaut að þessu sinni hæsta styrkinn  Samband íslenskra framhaldsskólanema fyrir Culture Class. Verkefnið felst í framleiðslu á fræðslumyndböndum um íslenskt samfélag og hvers konar upplifun það er hér á landi, að vera af erlendum uppruna.

Úthlutun úr þróunarsjóði innflytjendamála fór nýlega fram og hlaut að þessu sinni hæsta styrkinn Samband íslenskra framhaldsskólanema fyrir Culture Class. Verkefnið felst í framleiðslu á fræðslumyndböndum um íslenskt samfélag og hvers konar upplifun það er hér á landi, að vera af erlendum uppruna.

Um úthlutunina sá Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra. Sjóðsúthlutun fer fram ár hvert og er sjónum hverju sinni beint að ákveðnum viðfangsefnum ásamt þeim áherslum sem koma fram í framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda.

Tilgangur þróunarsjóðsins er að efla rannsóknir og þróunarverkefni með það að markmiði, að auðvelda gagnkvæma aðlögun innflytjenda og íslensks samfélags. Fer innflytjendaráð yfir styrkumsóknir og gerir að því búnu tillögu til ráðherra um úthlutanir.

Alls hlutu 23 verkefni styrk fyrir samtals 14 m.kr. Sérstök áhersla var lögð á verkefni sem snúa að börnum og ungmennum með virka þátttöku innflytjenda í samfélaginu að leiðarljósi og aukinn sýnileika þeirra. Í ljósi tíðarandans í samfélaginu og #metoo byltingarinnar voru enn fremur sjö styrkir veittir til verkefna af þeim toga.

Hæsti styrkurinn sem úthlutað var nam 1,3 m.kr. og rann, eins og áður segir, til Sambands íslenskra framhaldsskólanema. Myndböndin, sem framleidd verða, eru ætluð ungu fólki af erlendum uppruna og standa vonir til að þau geti síðar meir myndað grunn að menningarnámskeiði fyrir ungt fólk.

Þá hlaut Þroskahjálp næsthæsta styrkinn sem var veittur eða 1,1 m.kr. fyrir verkefnið Vitundarvakning um rétt fatlaðra barna innflytjenda til viðeigandi þjónustu.

Verkefnið felur í sér gerð á kynningarefni sem fjallar um þjónustu og úrræði sem foreldrum fatlaðra barna af erlendum uppruna stendur til boða. Markmiðið er að draga úr þeirri áhættu sem fötluð börn innflytjenda búa við, að þau farist á mis þjónustu sem þau þarfnast og eiga rétt á.

Fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga í innflytjendaráði er Anna Guðrún Björnsdóttir.

Uthlutun-ur-throunarsjodi-innflytjendamalaFrá úthlutun úr þróunarsjóði innflytjendamála (Ljósm. stjórnarráð)