Hringrásarhagkerfið sett á oddinn í borgum Evrópu

Það þarf að hraða innleiðingu hringrásarhagkerfisins í Evrópu. Þetta er megininntak yfirlýsingar sem hátt í 30 evrópskar borgir hafa undirritað.

Í yfirlýsingunni er einnig lögð áhersla á aukið samstarf milli borga Evrópu við innleiðingu hringrásarhagkerfisins. Meðal þess sem þarf að ná samkomulagi um er hvenær skilgreina má borgir sem “hringrásar-borgir”.

Því er mikilvægt að notast verði við sameiginlega mælikvarða í tengslum við innleiðingu hringrásarhagkerfisins. Í þessu tilliti er vert að minnast á verkefnið CityLoops, en því er ætlað að skilgreina mælikvarða fyrir evrópskar “hringrásar-borgir”. 

Líkt og annars staðar í Evrópu þá er hringrásarhagkerfið haft að leiðarljósi þegar kemur að úrgangsmálum hér á landi. Á þingmálaskrá Alþingis er m.a. að finna frumvarp um breytingu á lögum um meðhöndlun úrgangs. Með því er ætlunin að innleiða hluta af ESB tilskipunum sem falla að markmiðum hringrásarhagkerfisins. Þá má einnig nefna að ríkisstjórn Íslands hefur samþykkt aðgerðaáætlun í plastmálefnum og niðurstöður starfshóps um matarsóun liggja fyrir, en bæði þessi mál eru nátengd hringrásarhagkerfinu.

En hvernig gengur Evrópu að ná markmiðum Hringrásarhagkerfisins?

  • 11% hráefnis innan ESB er nýtt í anda hringrásarhagkerfisins.
  • 48% úrgangs sem fellur til hjá sveitarfélögum innan ESB er endurnýttur eða endurunninn.
  • Árlega verða 70 milljónir tonna af matvælum matarsóun að bráð innan ESB. Þetta samsvara 8 þúsund tonnum á hverri klukkustund árið um kring.

Betur má ef duga skal.