Starfshópi á vegum samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur verið falið að meta stöðu landshlutasamtaka sveitarfélaga og skilgreina hlutverk þeirra gagnvart sveitarfélögum annars vegar og ríkinu hins vegar.
Starfshópi á vegum samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur verið falið að meta stöðu landshlutasamtaka sveitarfélaga og skilgreina hlutverk þeirra og stöðu gagnvart sveitarfélögum annars vegar og ríkinu hins vegar.
Skipun starfshópsins vísar í þann hluta samstarfssáttmála ríkisstjórnarinnar sem fjallar um byggðamál: „Ríkisstjórnin mun auka samráð við sveitarfélögin um verkefni þeirra og fjárhagsleg samskipti. Skilgreina þarf hlutverk landshlutasamtaka og styrk sveitarfélaga til að rísa undir nauðsynlegri þjónustu“.
Tilgangur starfshópsins er að gera tillögur um, hvernig styrkja megi svæðisbundna samvinnu innan landshlutasamtaka, svo að sveitarfélög, og þar með sveitarstjórnarstigið, verði betur í stakk búið til að taka við fleiri verkefnum, með tryggan aðgang íbúa um land allt að nauðsynlegri og lögbundinni þjónustu fyrir augum. Jafnframt er starfshópnum ætlað að eiga víðtækt samráð við fulltrúa sveitarstjórna og samtök þeirra og horfa til stöðu og þróunar sveitarstjórnarstigsins í nágrannaríkjum.
Af þeim fimm sem eiga alls sæti í starfshópnum, eru Ásgerður Gylfadóttir, formaður bæjarráðs Sveitarfélagsins Hornafjarðar og Óli Halldórsson, formaður bæjarráðs Norðurþings, skipuð af ráðherra. Er Ásgerður jafnframt formaður starfshópsins. Samband íslenskra sveitarfélaga tilnefndi tvo fulltrúa, þau Ástu Stefánsdóttur, sveitarstjóra Bláskógabyggðar og Jón Björn Hákonarson, forseta bæjarstjórnar Fjarðabyggðar. Þá er Rakel Óskarsdóttir, bæjarfulltrúi á Akranesi og formaður SSV, tilnefnd af landshlutasamtökum sveitarfélaga.
Með starfshópnum starfar Stefanía Traustadóttir, sérfræðingur í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu og verður Eva Marín Hlynsdóttir, lektor við stjórnmálafræðideild Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands, enn fremur sérstakur ráðgjafi hans.