Hlutverk framleiðenda í hringrásarhagkerfi

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur fengið afhenta skýrslu starfshóps um endurmat á kerfi framlengdrar framleiðendaábyrgðar hér á landi.

Eins og nafnið gefur til kynna felur framlengd framleiðendaábyrgð í sér framlengingu á hefðbundinni ábyrgð framleiðenda og innflytjenda á vörum sínum þegar notkunartíma þeirra er lokið. Úrvinnslusjóður fer að stærstum hluta með framkvæmd þessarar ábyrgðar hér á landi en hann hefur frá árinu 2002 séð um umsýslu og ráðstöfun úrvinnslugjalds.

Í starfshópnum áttu sæti Halldór Árnason, formaður, Bryndís Skúladóttir, Brynhildur Pétursdóttir, Jón Viggó Gunnarsson og Sveinn Margeirsson.

Fram kemur í skýrslu starfshópsins að Úrvinnslusjóður hafi náð ágætum árangri við umsýslu úrvinnslugjalds og komið upp skilvirku fyrirkomulagi á úrvinnslu úrgangs sem leiðir almennt til endurvinnslu úrgangs og fullnægjandi meðhöndlunar spilliefna. Kerfið sé fremur einfalt og undanskot frá greiðslu úrvinnslugjald mun fátíðari en í nágrannaríkjum. Hins vegar bendi fátt til þess að sjóðnum hafi tekist að stuðla nægilega að árangri framar í virðiskeðju hringrásarhagkerfisins, s.s. í átt að visthönnun og því að draga úr úrgangi. Aukinheldur skorti nokkuð á gegnsæi í starfsemi Úrvinnslusjóðs og kerfið hvetji ekki nægjanlega til nýsköpunar. Þá sé mikilvægt að huga að stöðu Úrvinnslusjóðs sem opinberrar stofnunar og trausti innan stjórnar sjóðsins, auk þess sem sífellt flóknari álagning úrvinnslugjalds hafi í för með sér áskoranir fyrir sjóðinn.  

Starfshópurinn leggur til að gegnsæi verði aukið í starfsemi Úrvinnslusjóðs, t.a.m. með birtingu gagna í stafrænni upplýsingagátt, þá verði þátttaka sjóðsins í uppbyggingu hringrásarhagkerfis aukin með skilvirkari beitingu hagrænna hvata, auknum úrgangsforvörnum og fræðslu og aukinni þátttöku í nýsköpun. Jafnframt leggur hópurinn til að athugaðar verði mögulegar nýjar leiðir við innheimtu úrvinnslugjalds í ljósi sífellt flóknari álagningar og að skoðaðar verði hugmyndir að kerfislegum breytingum á framkvæmd framlengdrar framleiðendaábyrgðar, sem hugsanlega gætu auðveldað kerfinu að mæta áskorunum framtíðar. Starfshópurinn leggur áherslu á að samráð verði haft um tillögurnar við hagsmunaaðila og hyggst því standa fyrir vinnustofu um skýrsluna, sem eru nú í undirbúningi.