Helstu mál á vettvangi ESB árið 2020 – Grænn samningur fyrir Evrópu

Ljóst er að Grænn samningur fyrir Evrópu verður fyrirferðamesta málið á dagskrá framkvæmdastjórnar ESB árið 2020. Forseti framkvæmdastjórnar ESB, Ursula von der Leyen, hefur lýst því yfir að um sé að ræða mikilvægasta verkefni okkar tíma og að áframhaldandi hagsæld Evrópu byggi á því að vistkerfi jarðarinnar séu heilbrigð og nýting náttúruauðlinda sjálfbær.

Í starfsáætlun framkvæmdastjórnar ESB fyrir árið 2020 er að finna sex forgangsmál sem leggja línurnar fyrir helstu aðgerðir ESB næstu fimm árin:

 1. Grænn samningur fyrir Evrópu
 2. Stafræn framtíð Evrópu
 3. Efnahagskerfi sem sinnir þörfum almennings
 4. Áhrif Evrópu á heimsvísu
 5. Evrópsk gildi
 6. Öflugra lýðræði í Evrópu

Grænn samningur fyrir Evrópu

Ljóst er að Grænn samningur fyrir Evrópu verður fyrirferðamesta málið á dagskrá framkvæmdastjórnar ESB árið 2020. Forseti framkvæmdastjórnar ESB, Ursula von der Leyen, hefur lýst því yfir að um sé að ræða mikilvægasta verkefni okkar tíma og að áframhaldandi hagsæld Evrópu byggi á því að vistkerfi jarðarinnar séu heilbrigð og nýting náttúruauðlinda sjálfbær. Hér er vísað til þess að loftslagsbreytingar, ofnýting á náttúruauðlindum, útrýming tegunda, auk skógarelda, flóða og annarra náttúruhamfara grafi undan öryggi og hagsæld Evrópu.

Grænn samningur fyrir Evrópu er svar ESB við þessu. Samningnum er ætlað að tryggja kolefnislausa Evrópu árið 2050 og að jafnframt því verði gripið til aðgerða til þess að laga samfélög og efnahagskerfi Evrópu að áhrifum loftslagsbreytinga. Samningnum er auk þess ætlað að vernda náttúruauðlindir og líffræðilegan fjölbreytileika Evrópu og þá skipar vernd hafsins einnig stóran sess í samningnum.

En Græni samningurinn fjallar um annað og meira en einungis loftslag og umhverfi. Honum er einnig ætlað að vera vaxtarsproti fyrir evrópskt efnahagslíf. Nýsköpun og nútímavæðing hagkerfa og iðnaðar Evrópu er því grundvallaratriði í samningnum, þar sem sköpun starfa og samkeppnishæfni Evrópu eru lykilhugtök. Ný iðnaðarstefna er af þeim sökum hluti af þessum græna samningi og þá er „stafrænu byltingunni“ einnig ætlað stórt hlutverk þegar kemur að grænum og sjálfbærum lausnum.

Framkvæmdastjórn ESB stefnir að því að hrinda meginþorra þeirra aðgerða sem tengjast Græna samningnum í framkvæmd árið 2020. Þar má nefna:

 • Nýja loftslagsstefnu ESB þar sem kynnt verður hvernig eigi að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í Evrópu um 55% fyrir árið 2030 og gera Evrópu að fyrstu kolefnishlutlausu heimsálfunni fyrir árið 2050.
 •  Stefnumótun fyrir sjálfbæra framleiðsla og iðnað, sem er ætlað að tryggja sjálfbærari og umhverfisvænni framleiðsluferla í anda hringrásarhagkerfisins. Þessu tengt verður kynnt til sögunnar ný aðgerðaáætlun um innleiðingu hringrásarhagkerfisins, þar með talið stefnumótun um sjálfbærari vörur.
 • Stefnumótun fyrir sjálfbærar samgöngur og vistvæna innviða uppbyggingu.
 • Stefnumótun er varðar líffræðilegan fjölbreytileika.
 • „Frá býli til gaffals“, stefnumótun sem ætlað er að tryggja sjálfbær fæðukerfi fyrir íbúa Evrópu.
 • Aðgerðir til að auka notkun á hreinum orkugjöfum og bæta orkunýtni.

Samningurinn mun hafa mikil áhrif á borgir, bæi og sveitarfélög í Evrópu þar sem hann fjallar um málaflokka sem svæðisbundin stjórnvöld fara með að stórum hluta eða að öllu leiti. Þar má til dæmis nefna ákvarðanir sem snúa að orkumálum, hringrásarhagkerfinu, samgöngum, loftgæðum og vernd líffræðilegs fjölbreytileika.

Mars 2020 - Ný aðgerðaáætlun um innleiðingu hringrásarhagkerfisins

Meðal þess sem er að vænta á næstu vikum er tillaga framkvæmdastjórnar ESB að nýrri aðgerðaáætlun um innleiðingu hringrásarhagkerfisins, þar með talið stefna um sjálfbærari vörur. Þess er að vænta að nýja aðgerðaáætlunin verði kynnt í mars á þessu ári. Á sama tíma verður kynnt ný iðnaðarstefna fyrir ESB, enda er henni ætlað að byggja á hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins.

EUGreenDeal