Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur ákveðið að framlengja heimild sveitarstjórna til að víkja tímabundið frá tilteknum skilyrðum ákvæða í sveitarstjórnarlögum til að tryggja starfhæfi sveitarstjórna og að auðvelda ákvörðunartöku þeirra við þær aðstæður sem eru upp í þjóðfélaginu.
Samkvæmt auglýsingu um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra gildir heimildin til 10. nóvember en samkvæmt bráðabirgðaákvæði í sveitarstjórnarlögum er eingöngu hægt að veita umrædda heimild til fjögurra mánaða í senn.
Samkvæmt auglýsingunni er heimilt:
- Að nota fjarfundabúnað á fundum sveitarstjórnar og nefnda sveitarfélagsins, án þess að fjarlægðir séu miklar, samgöngur innan sveitarfélags séu erfiðar eða mælt sé fyrir um notkun slíks búnaðar í samþykktum sveitarfélagsins.
- Að ákveða að engin takmörk verði á fjölda fundarmanna sem taka þátt í fundum sveitarstjórnar og nefnda sveitarfélagsins með fjarfundabúnaði.
- Að ákveða að valdsvið nefnda verði með öðrum hætti en mælt er fyrir um í samþykktum sveitarfélagsins.
- Að fela fastanefnd eða einstökum starfsmönnum sveitarfélagsins fullnaðarafgreiðslu tiltekinna mála sem varða ekki verulega fjárhag sveitarfélags og lög eða eðli máls mæla ekki sérstaklega gegn, þrátt fyrir að kveðið sé á um annað í samþykktum sveitarfélagsins.
- Að ákveða að staðfesting fundargerða sveitarstjórnar verði með öðrum hætti en mælt er fyrir um í 10. og 11. gr. auglýsingar um leiðbeiningar um ritun fundargerða sveitarstjórna, nr. 22/2013.
Sveitarstjórn þarf að taka ákvörðun um að virkja ofangreindar heimildir og er heimilt að taka þessar ákvarðanir á fundi þar sem allir fundarmenn taka þátt í fundinum í gegnum fjarfundabúnað.
Vakin er athygli á því að sveitarstjórnir þurfa að taka ákvörðun að nýju um að virkja þessar heimildir, þ.e.a.s. ekki er hægt að byggja á ákvörðun sveitarstjórnar er tekin var þegar fyrri auglýsing um sambærilegt efni var samþykkt fyrr á árinu.