Heiða Björg Hilmisdóttir næsti formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga

Heiða Björg Hilmisdóttir, varaformaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og borgarfulltrúi, verður næsti formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Heiða Björg Hilmisdóttir tekur við blómvendi úr hendi Söndru Líf Ocares sem á sæti í kjörstjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga. Ljósm.: Ingibjörg Hinriksdóttir

Kosning formanns fór fram samkvæmt samþykktum sambandsins dagana 15. – 29. ágúst sl.

Auk Heiðu Bjargar bauð Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri í Hafnarfirði, sig fram til að gegna embætti formanns næstu fjögur árin.

Heiða Björg mun taka við embætti af Aldísi Hafsteinsdóttur, núverandi formanni, á landsþingi sambandsins sem haldið verður á Akureyri dagana 28.-30. september. Á landsþinginu verður stjórn sambandsins kjörtímabilið 2022-2026 kjörin.

Á kjörskrá voru 152 landsþingsfulltrúar og var kosningaþátttaka 98,03%. Heiða Björg hlaut 76 atkvæði eða 51,01%, en Rósa Guðbjartsdóttir hlaut 73 atkvæði eða 48,99%.

Heiða Björg er fædd og uppalin í Eyjafirði, en hefur búið í Reykjavík nær öll hennar fullorðinsár. Heiða Björg var kjörin varaformaður Samfylkingarinnar í febrúar 2017, hún hefur setið í borgarstjórn Reykjavíkur í 9 ár og verið varaformaður stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga síðustu 4 ár.