Hefðbundið meirihlutamynstur á undanhaldi

Svíar kusu til sveitar- og héraðsstjórna í gær samhliða kosningum til riksdagen, sænska löggjafarþingsins. Helstu niðurstöður eru þær, að meirihlutasamstarf féll í meirihlutanum af þeim sveitarstjórna-, landsþings- og svæðisstjórnakosningum sem fóru fram. Þá dregur úr trausti kjósenda til stjórnmála, enda þótt kosningaþátttaka hafi aukist frá síðustu kosningum, árið 2014.

Svíar kusu til sveitar- og héraðsstjórna í gær samhliða kosningum til Riksdagen, sænska alþingisins. Helstu niðurstöður eru þær, að meirihlutasamstarf féll í meirihlutanum af þeim sveitarstjórna-, landsþings- og svæðisstjórnakosningum sem fóru fram. Þá dregur úr trausti kjósenda til stjórnmála, enda þótt kosningaþátttaka hafi aukist frá síðustu kosningum, árið 2014.

SKL, samband sveitar- og héraðsstjórna í Svíþjóð, hefur rýnt kosningaúrslit gærdagsins. Helstu niðurstöður eru, að sögn sambandsins þær, að Sverigedemokraterna (SD), Centerpartiet (C), Kristdemokraterna (KD) og Vänstrepartiet (V) juku fylgi sitt, á meðan fylgi Socialdemokraterna (S), Miljöpartiet (MP) og Moderaterna (M) minnkaði.

Þetta þýðir í reynd að sitjandi meirihluti fékk umboð sitt ekki endurnýjað í meirihluta tilvika. Ef litið er til einstakra úrslita, þá féll meirihlutinn í 195 sveitarstjórnum, sem er talsverð aukning frá síðustu kosningum, þegar meirihlutinn féll í 162 sveitarstjórnum.

Þá hafa Sverigedemokraterna styrkt stöðu sína til muna og er flokkurinn nú í oddastöðu í 132 sveitarstjórnum gagnvart hinum hefðbundnu hægri- og vinstriblokkum í sænskum stjórnmálum ásamt 16 landsþingum og svæðisstjórnum. Hefðbundið meirihlutasamstarf virðist því á undanhaldi.

Þessar niðurstöður fela það í sér,  að þrenns konar stjórnarmyndun er möguleg í meirihluta tilvika á sveitar- og svæðisstjórnarstigi eða myndun nýs meirihluta þvert á hefðbundnu blokkirnar, myndun minnihlutastjórnar eða myndun einhvers konar fjölflokkastjórnar með aðild Sverigedemokraterna.

Þess má svo geta að eftir kosningar 2014 tóku fjölflokkastjórnir, sem myndaðar voru þvert á hefðbundnu blokkirnar, við völdum í 101 sveitarfélagi og 4 landsþingum og svæðisstjórnum.

Helstu niðurstöður eru eftirfarandi (samanborið við kosningaúrslit 2014):

  • Í sveitarstjórnarkosningum nam fylgistap (S) 3,6%, (MP) 3,2% og (M) 1,5%. Fylgi jókst á hinn bóginn um 3,5% hjá (SD), 1,8% hjá (C) og 1,2% hjá annars vegar (KD) og hins vegar (V).
  • Í landsþingskosningunum nam fylgistap (S) 4,2%, (MP) 3,1% og (M) 2,2%. Fylgi jókst á hinn bóginn um 3,8% hjá (SD), 2,1% hjá (C), 1,9% hjá (KD) og 1,4% hjá (V).
  • (SD) fékk mun minna fylgi í kosningum til sveitarstjórna og landsþinga en í kosningum til riksdagen og munar þar annars vegar 4,8 (sveitarstjórnir) og hins vegar 4,7 prósentustigum (landsþing).

Þá hefur dregið úr trausti almennings til stjórnmálamanna og bera nú aðeins 59% kjósenda traust til þeirra. Hefur hlutfallið lækkað um 8 prósentustig á milli kosninga eða úr 67%.

Fyrstu tölur gefa enn fremur til kynna að kosningaþátttaka hafi aukist. Þátttaka er þó enn afar misjöfn eftir kjördæmum. Utankjörstaðaratkvæðum fjölgaði einnig og hafa aldrei verið fleiri en nú. Flokkstryggð fer jafnframt dvínandi, þarm sem þeim fjölgar enn sem kjósa ólíka flokka eftir stjórnsýslustigum.

Þess má svo geta að á Norðurlöndunum er kosningaþátttaka mest í Svíþjóð og hefur það verið m.a. rakið til þess að kosið er til allra þriggja stjórnsýslustiga í einu.