Greiðslur Úrvinnslusjóðs til sveitarfélaga

Úrvinnslusjóður mun greiða 13,1 kr. á hvert kíló af úrgangi sem safnast á víðavangi og úr ruslastömpum.

Stjórn Úrvinnslusjóðs hefur útfært kostnaðarþátttöku sína vegna söfnunar á víðavangi, sblr. 37. gr. h. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir:

Framleiðendum og innflytjendum skv. 1. mgr. [plastvörur] ber jafnframt að fjármagna hreinsun á rusli á víðavangi sem er til komið vegna þessara vara, ásamt flutningi þess og annarri meðhöndlun. Framangreind hreinsun skal vera á hendi opinberra yfirvalda eða í þeirra umboði.

Sveitarfélög sem hyggjast sækja greiðslur til sjóðsins vegna söfnunar á víðavangi þurfa að skrá eftirfarandi upplýsingar:

  • Magn úrgangs sem safnast úr hreinsun opinna svæða og ruslastömpum
  • Uppruni úrgangs niður á póstnúmer
  • Dagsetning söfnunar
  • Staðfesting á ráðstöfun úrgangs (t.d. reikning fyrir móttöku)

Sjóðurinn heldur utan um skilagreinar á vef sínum og geta sveitarfélög skilað upplýsingum til sjóðsins þangað: https://www.urvinnslusjodur.is/fyrir-thjonustuadila/skilagreinar-og-verdskra

Úrvinnslusjóður mun greiða 13,1 kr á hvert kíló af úrgangi sem safnast á víðavangi, svo sem í hreinsunarátökum sveitarfélaga og úr ruslastömpum á opnum svæðum. Sjóðurinn áætlar að kostnaður vegna söfnunar á víðavangi sé um 262 kr á hvert kg en telur að einungis 5% af því sem safnast falli undir einnota plastvörur. Því greiðir sjóðurinn 13,1 kr af því sem safnast. Úrvinnslusjóður byggir mat sitt á hefur upplýsingum annarra landa í Evrópu um söfnun úrgangs á víðavangi.

Samtökin Municipal Waste Europe vann greiningu á kostnaði vegna rusls á víðavangi (e. littering) árið 2020. Niðurstaðan er að kostnaðurinn geti verið á bilinu 5-21 EUR á íbúa/ári. Yfirfært yfir á Ísland þá má ætla að kostnaðurinn sé á bilinu 297 til 1.247 milljónir króna á ári. Hollensk rannsókn sem einnig er fjallað um í greiningunni áætlar að sveitarfélög og svæðisbundin stjórnvöld beri um 77% af þessum kostnaði.

Tengiliðir Úrvinnslusjóðs vegna söfnunar á víðavangi eru Gunnlaug Einarsdóttir, netfang: gunnlaug@urvinnslusjodur.is og Margrét Kjartansdóttir, netfang: margret@urvinnslusjodur.is og veita þær nánari upplýsingar ef þörf er á.